Enski boltinn

Hull slökkti endanlega á Meistaradeildardraumi Liverpool | Sjáið sigurmarkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Dawson fagnar marki sínu
Michael Dawson fagnar marki sínu Vísir/Getty
Hull vann gríðarlega mikilvægan sigur á Liverpool í kvöld í ensku úrvalsdeildinni en lærisveinar Steve Bruce eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni.

Michael Dawson skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleiknum og baráttuglöðu liði Hull tókst að halda hreinu á móti bitlausu Liverpool-liði.

Liverpool hefur þar með aðeins náð í fjögur stig af fimmtán mögulegum í síðustu fimm deildarleikjum sínum og er nú sjö stigum frá Meistaradeildarsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Liverpool tókst ekki að skora í kvöld ekki frekar en í markalausa jafnteflinu á móti West Bromwich Albion um síðustu helgi.

Hull vann hinsvegar sinn annan leik í röð og liðið hefur haldið hreinu í þeim báðum. Þessi sex stig skila liðinu upp í 15. sæti, fjórum stigum frá fallsæti.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en Hull-liðið fékk betri færi og átti skilið að vera yfir í hálfleik.

Simon Mignolet bjargaði frá Dame N'Doye eftir sjö mínútna leik og svo aftur þegar Hull-liðið fékk tvö dauðafæri með sekúndna millibili eftir tæplega hálftíma leik.

Markið kom ekki fyrr en á 37. mínútu leiksins þegar Michael Dawson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Ahmed Elmohamady.

Liverpool var nálægt því að jafna metin á síðustu mínútum fyrri hálfleiks, fyrst varði Steve Harper frá fyrirliðanum Jordan Henderson og svo slapp Glen Johnson í gegn við endalínuna en boltin rúllaði fyrir framan markið án þess að félögum hans tókst að komast í hann.

Liverpool var miklu meira með boltann í seinni hálfleiknum en gekk illa að opna vörnina hjá Hull. Jordan Henderson fékk besta færið en Steve Harper varði þá vel frá honum.

Lið Hull var skipulagt og seinni hálfleikurinn snérist að mestu um að loka svæðum og halda marki sínu hreinu sem liðinu tókst.

1-0 fyrir Hull - Michael Dawson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×