Enski boltinn

Mourinho búinn að framlengja við Chelsea | "Þetta félag á sérstakan stað í hjarta mínu“

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mourinho var sólbrúnn í leik Arsenal og Chelsea á dögunum.
Mourinho var sólbrúnn í leik Arsenal og Chelsea á dögunum. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, skrifaði í kvöld undir nýjan fjögurra ára samning við félagið en hann átti tvö ár eftir af fyrrverandi samning.

Mourinho sem sneri aftur til Chelsea sumarið 2013 eftir þrjú ár hjá Real Madrid og tvö ár hjá Inter er að stýra Chelsea í annað sinn og hefur hann orðið enskur meistari þrisvar í fimm tilraunum.

Hefur hann skilað titli í öllum keppnum hjá Chelsea nema Meistaradeildinni en ásamt því að stýra liðinu til sigurs í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili stýrði hann liðinu til sigurs í enska deildarbikarnum.

„Ef félagið er ánægt með störf mín er ég ánægður. Það er eðlilegt að ég skrifi undir nýjan samning og vonandi get ég haldið áfram að skila árangri fyrir félagið fyrir aðdáendurna, leikmennina og félagið,“ sagði Mourinho sem var óvenju meyr í viðtalinu.

„Ég sagði þegar ég sneri aftur að þetta félag ætti sérstakan stað í hjarta mínu og það hefur ekkert breyst. Þetta er félagið sem stendur næst hjarta mínu og ég er mjög ánægður að vita að ég sé ekki á förum næstu árin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×