Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri Mílu skilar hlut sínum í Símanum

ingvar haraldsson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands handsöluðu Símann inn í Kauphöllina í haust.
Orri Hauksson, forstjóri Símans og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands handsöluðu Símann inn í Kauphöllina í haust. vísir/gva
Kaup Jóns Kristjánssonar, framkvæmdastjóri Mílu, á hlut í Símanum fyrir tæpar tíu milljónir króna hafa gengið til baka. Jón óskaði sjálfur eftir því þar sem Eftirlitsnefnd um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja hafði lýst efasemdum um hvort viðskiptin samræmdust sátt sem Síminn gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2011.

Jón Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu.
Fréttablaðið greindi frá því í október að Jón hefði fengið að kaupa hlut í Símanum, einn starfsmanna Mílu. Honum hefði boðist að kaupa hlutabréfin á genginu 2,5 krónum á hlut á sama tíma og aðrir í framkvæmdastjórn Símans keyptu í fyrirtækinu.

Starfsmenn Mílu eru útilokaðir frá kaupréttum sem almennir starfsmenn Símans fá vegna sáttar Símans við Samkeppniseftirlitið. Sáttin felur meðal annars í sér kvaðir um aðskilnað Mílu frá Símanum. 

Jón hélt þó að kaup sín féllu ekki undir sáttina. Fenginn hefði verið óháður lögfræðingur sem komst að þeirri niðurstöðu.

Jón, aðrir framkvæmdastjórar Símans og hópur fjárfesta keyptu 5 prósenta hluti í Símanum á 2,5 krónur á hlut í lok sumars. Verð á hlutum í Símanum er nú 3,48 krónur á hlut.


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóri Mílu fékk að kaupa en starfsmenn ekki

Framkvæmdastjóri Mílu keypti hlut í Símanum á gengi sem starfsmönnum Mílu býðst ekki. Óánægja er meðal starfsmanna Mílu með að fá ekki kauprétti. Eftirlitsnefnd Samkeppniseftirlitsins er með kaupin til skoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×