Viðskipti innlent

Lokað á Pizza 67 eftir að rafmagnið var tekið af

ingvar haraldsson skrifar
Pizza 67 við Grensásveg var lokaður og mannlaus þegar ljósmyndara bar að garði í hádeginu í gær. Öll ljós voru slökkt enda búið að taka rafmagnið af. fréttablaðið/anton
Pizza 67 við Grensásveg var lokaður og mannlaus þegar ljósmyndara bar að garði í hádeginu í gær. Öll ljós voru slökkt enda búið að taka rafmagnið af. fréttablaðið/anton vísir/anton
Lokað var fyrir rafmagn á veitingastöðum Pizza 67 við Grensásveg og Langarima í Grafarvogi í gær vegna skuldar. Pitsastaðirnir voru því lokaðir í gærmorgun en opnuðu á ný í gærkvöldi eftir að rafmagnsreikningurinn var greiddur. Staðurinn í Grafarvogi var opnaður fyrir ári en á Grensásvegi síðasta sumar.

Vísir greindi frá því í síðustu viku að P67 ehf., sem rekur veitingastaðina tvo undir merkjum Pizza 67, skuldaði starfsmönnum laun auk þess að hafa hvorki greitt lífeyrissjóðum né verkalýðsfélögum lögbundnar greiðslur. Anton Traustason, eigandi Pizza 67, sagði þá að allir starfsmenn fengju greitt en það tæki tíma.

Sjá einnig: Endurkoma Pizza 67 ekki gengið áfallalaust



Anton bar fyrir sig að opnun staðarins við Grensásveg hefði verið dýrari en áætlanir hefðu gert ráð fyrir. Of margir starfsmenn hafi verið þjálfaðir sem hafi svo lítið unnið. Þá hefðu afturvirkar kjarasamningshækkanir Eflingar komið illa við reksturinn. Hann var þess fullviss að gengi staðarins myndi snúast við enda væri desember stærsti mánuður ársins í skyndibitageiranum.

Anton vildi lítið tjá sig þegar Fréttablaðið ræddi við hann fyrir hádegi í gær og sagðist vera á fundi. Hann bað um að haft yrði samband við hann eftir hádegi en ekki náðist í Anton á ný þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×