Erlent

Sósíalistar hafa tapað völdum í Venesúela

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nicolas Maduro forseti viðurkenndi ósigur Sósíalistaflokksins en sagði lýðræðið hafa sigrað.
Nicolas Maduro forseti viðurkenndi ósigur Sósíalistaflokksins en sagði lýðræðið hafa sigrað. Fréttablaðið/EPA
„Við höfum tapað orrustu í dag, en baráttan fyrir því að byggja upp nýtt samfélag er rétt að hefjast,“ sagði Nicolas Maduro, forseti Venesúela, þegar ljóst var að Sósíalistaflokkur hans hafði tapað þingmeirihluta sínum.

Sósíalistaflokkurinn hefur stjórnað Venesúela í sextán ár, eða allt frá því Hugo Chavez vann stórsigur í forsetakosningum árið 1999.

Chavez naut mikilla vinsælda, ekki síst fyrir að nota olíuauð landsins til að bæta hag almennings. Hann þjóðnýtti ýmis helstu iðnfyrir­tæki landsins og gerði breytingar á stjórnarskrá til þess meðal annars að styrkja stöðu forsetaembættisins.

Maduro tók við embættinu eftir að Chavez lést árið 2013 og hefur haldið áfram á svipaðri braut sósíalísks hagkerfis.

Efnahagserfiðleikar hafa hins vegar hrjáð landið undanfarin misseri, ekki síst vegna óvenju lágs olíuverðs á heimsvísu. Verðbólgan er komin upp yfir 100 prósent og skortur er á ýmsum nauðsynjavörum í landinu.

Maduro viðurkenndi fúslega ósigur flokks síns í þingkosningunum og sagði stjórnarskrá landsins og lýðræðið hafa sigrað . Nú tekur við völdum bandalag stjórnarandstöðuflokka af hægri væng og miðju stjórnmálanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×