Erlent

Pólskur ráðherra vill banna uppsetningu á „klámfengnu“ leikverki Nóbelskálds

Atli Ísleifsson skrifar
Piotr Gliński gegnir einnig embætti aðstoðarforsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn hægrimanna í Póllandi.
Piotr Gliński gegnir einnig embætti aðstoðarforsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn hægrimanna í Póllandi. Mynd/Wikipedia
Nýr menningarmálaráðherra Póllands vill banna uppsetningu eins af stærstu leiklistarfélögum landsins á verki eftir austurríska Nóbelshöfundinn Elfriede Jelinek.

Ráðherrann, Piotr Gliński, segir það óboðlegt að ráðstafa opinberu fé til að niðurgreiða „klám“, en leikhópurinn sem um ræðir setur nú upp verkið Der Tod und das Mädchen í borginni Wrocław.

Gliński sendi ríkisstjóranum í Neðri-Sílesíu bréf að kvöldi frumsýningarinnar þar sem hann fór fram á að henni yrði aflýst.

Gliński gegnir einnig embætti aðstoðarforsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn hægrimanna, en í frétt Guardian um málið segir að stjórnarandstæðingar segi bréf Gliński minna á ritstjórnartilburði gamalla tíma.

Cezary Przybylski, ríkisstjóri Neðri Sílesíu, hafnaði beiðni ráðherrans og sagði ríkistjóraskrifstofuna ekki hafa afskipti af listrænni tjáningu.

Jelinek hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×