Viðskipti innlent

Vantaði eina og hálfa tommu á Dominos pítsuna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stór Domino's pítsa á að vera 14,5 tommur.
Stór Domino's pítsa á að vera 14,5 tommur. mynd/dominos
„Þetta er eitthvað sem getur gerst en á ekki að gerast,“ segir Anna Fríða Gísladóttir markaðsfulltrúi Domino's Pizza á Íslandi í samtali við Vísi. Tilefnið er mynd sem viðskiptavinur staðarins birtir á Facebook-vegg Domino's þar sem stór pítsa er aðeins þrettán tommur. Að sögn Önnu hefur stærðinni á pítsunum ekki verið breytt í fjölda ára, þær hvorki minnkaðar né stækkaðar.

Sá hafði pantað tvennutilboð og fannst pítsan vera í minni kantinum svo hann vippaði út málbandinu. „Þið segið reyndar alltaf bara „stór pítsa“ en mér þykir þá sérstakt að stór pítsa sé rétt um stærri en 12“ mið-pítsa hjá samkeppnisaðilum ykkar,“ skrifar hinn óánægði viðskiptavinur á vegg fyrirtækisins.

Þessi stóra pítsa reyndist aðeins 13".
„Ég hef lengi haft grun um að pítsurnar frá ykkur séu minni en þær ættu að vera. Þær voru allavega alltaf fimmtán tommur," fylgir einnig sögunni.

Pítsan á að fylla út í pítsakassann

„Þessi viðskiptavinur hefur fengið pítsu sem stenst ekki þær gæðakröfur sem við gerum. Allar deigkúlurnar eru jafnþungar og stór pítsa á að vera 14,5“. Þarna hefur eitthvað misfarist þegar verið var að koma deiginu fyrir á plötunni eða eitthvað klikkað í bakstri. Okkur þykir það miður,“ segir Anna. 

Á matseðli Domino's er nákvæm stærð afurðanna ekki tilgreind heldur er aðeins boðið upp á stærðirnar lítil, mið, pönnu og stór. Í hverri stærð fyrir sig eiga pítsurnar að ná alveg kanta á milli á pítsakassanum. Í tilfelli litlu pítsanna er kassinn átta tommur, 11,5 í miðstærð og tólf í pönnupítsu. 

„Við erum með mjög skýra verkferla um hvernig þetta á að vera hjá okkur, hve stórar pítsurnar skulu vera og hve mikið álegg fer á hverja og eina. Okkur er mjög annt um viðskiptavini okkar og við höfum ekkert að fela. Allar pítsurnar í auglýsingum frá okkur eru gerðar af okkar starfsfólki og við brúkum ekki nein myndvinnsluforrit til að láta þær líta betur út. En það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis í framleiðslunni.“ 

Að lokum segir Anna Fríða að hinum óánægða viðskiptavini verði bættur skaðinn og vonandi verði allir sáttir að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×