Viðskipti innlent

„Ef ég væri Lalli liði mér djöfulli illa með mína stærstu hluthafa í svona skítamálum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hannes Smárason og Lárus Welding.
Hannes Smárason og Lárus Welding. Vísir/Gva/Stefán
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Sögu Capital, skildi það sem svo að Hannes Smárason hafi verið búinn að panta hlutabréf í FL Group og Glitni en síðan „gengið úr skaftinu vegna fjárhagsörðugleika, eins og Þorvaldur orðaði það fyrir dómi í dag. Því hefði verið stofnað til Stím-viðskiptanna.

Þetta kom fram þegar saksóknari spurði hann út í 1. og 2. ákærulið í Stím-málinu en í þeim liðum er Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, ákærður fyrir umboðssvik vegna 20 milljarða króna láns sem bankinn veitti Stím til að kaupa hlutabréf sem bankinn átti í sjálfum sér og FL Group í nóvember 2007.

FL Group var einn stærsti hluthafinn í Glitni en Hannes Smárason var forstjóri félagsins þar til  í desember 2007. 

Þurfti „að passa“ að hvorki FL Group né Hannes færu illa

Í símtali milli Þorvaldar Lúðvíks og Elmars Svavarssonar, þá verðbréfamiðlara í Glitni, sem spilað var fyrir dómi í dag ræða þeir um Stím-viðskiptin.

Símtalið er frá 13. nóvember 2007 en daginn áður hafði áhættunefnd Glitnis samþykkt að lána félaginu allt að 24 milljarða.

Saga Capital lánaði félaginu einnig fé en um  miklu lægri upphæð var að ræða, nánar tiltekið einn milljarð. Í símtalinu segir Þorvaldur að allir viti að það sé „verið að passa að FL fari ekki illa og að Hannes fari ekki illa.“

Setur Þorvaldur þetta í samhengi við það að Hannes sé stærsti hluthafinn í bankanum og því verði að „passa upp á að þetta væri í lagi.“ Skömmu síðar segir hann við Elmar:

„Ef ég væri Lalli liði mér djöfulli illa með mína stærstu hluthafa í svona skítamálum.“

Meira eigið fé í Stím en upphaflega stóð til

Elmar segir að það sé „náttúrulega driver-inn á bak við þetta,“ það er Stím-viðskiptin, og það þurfi ekkert að fara í felur með það. „Punkturinnn“ sé að koma Hannesi „úr skítnum.“

Saksóknari spurði Þorvald hvað hann hefði átt við með því að stærsti hluthafinn væri „í skítamálum“ og vísaði Þorvaldur þá í þann skilning sinn að Hannes hefði verið í lélegri fjárhagsstöðu og því ekki getað keypt hlutabréfin sem hann ætlaði að gera upphaflega.

Í símtalinu var einnig talað um viðskiptin sem „erfiðan díl“ en Þorvaldur sagði að í því hefði aðeins falist að þarna hefði enn allt verið á fleygiferð hverjir myndu verða til dæmis verða hluthafar og lántakar.

Einnig kom fram að honum hefði þótt „díllinn meira sound en áður“ en aðspurður sagði Þorvaldur þar hafa verið að vísa til þess að Stím myndi hafa meira eigið fé undir höndum en upphafleg stóð til. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×