Skoðun

Loksins loksins

Jökull A. Guðmundsson skrifar
Í Fréttablaðinu fimmtudaginn 8. október (innbl. Fólk),  birtist athyglisverð grein þar sem sagt er frá starfi frumkvöðulsins Garðars Garðarssonar.  Garðar hefur undanfarin ár unnið að þróun sjónvarpa og heyrnartóla.  Hann telur sig geta í senn bætt framleiðslu þessara tækja og stórlækkað verð þeirra.

Loksins stígur einhver fram sem hefur kjark, vilja og jafnframt getu til að koma almennum notendum raftækja til varnar gegn síendurteknum framleiðslu og sölubrellum framleiðenda og söluaðila flestra gerða þeirra raftækja sem talin eru sjálfsögð nauðsynjavara á heimilum fólks.  Mest ber á þessum brellum í framleiðslu raftækja sem hafa innbyggt svokallað „móðurborð"  sem stjórna á sjálfvirkni þeirra.

Þessi brellubrögð framleiðenda halda almenningi sannarlega í ánauð, og svo sú staðreynd að framleiðendurnir kæra ekki hver annan um annarlega viðskiptahætti hlýtur að teljast samráð og þannig brot á samkeppnislögum.  Lýsandi dæmi um það hvernig samkeppnisandinn leggst í dvala þegar ráðandi öflum markaðarins hentar.

Ég tek sjónvarpstæki og stafrænar myndavélar sem dæmi.  Það vita þeir best sem annast viðgerðir á þesskonar tækjum, hvernig oftar og oftar verða orðaskiptin við viðskiptavinina sem koma til þeirra með biluð tæki sín eitthvað á þessa leið:  

Þegar viðskiptavinurinn hefur lýst því hvernig tækið bara allt í einu hætti að verka,  virtist bara dáið upp úr þurri án þess að  nokkuð hefði komið fyrir það, þá svarar viðgerðarmaðurinn,   „Já" „við könnumst við þessa lýsingu og líklegast er þetta tæki ekki að fara að gera neitt meira fyrir þig".     „En það er bara svo stutt síðan við keyptum tækið og það var sagt í þriggja ára ábyrgð, en hún rann nú víst út fyrir nokkrum mánuðum segir viðskiptavinurinn".      „Já", við getum tekið við tækinu og sent það í bilanagreiningu, en það tekur nokkra daga og kostar einhver (X) þúsund krónur.  Við látum þig vita um niðurstöðuna".  

Og hver skildi svo niðurstaðan oftast verða?    Og þá er tækið í öðrum landshluta og viðskiptavinurinn þarf að svara því,  þegar hann mætir til að borga bilanagreininguna,  hvort á að henda tækinu strax eða senda honum það með nýjum tilkostnaði.

Þennan stíg hef ég gengið þrisvar, tvívegis með myndavél og einu sinni með sjónvarp.  Auk þess hef ég heyrt fjölmargar sögur um samskonar hrakfarir fólks.  En þú lesandi góður?  hefur þú lent í þessum aðstæðum?,  eða veist þú fyrir víst um einhverja sem hafa gert það?   Ég  þykist vita að  „Ja há"  svör verði mörg.

Maður nokkur, sem ég ræddi þessi mál við er vel kunnugur viðgerðabransanum á sjónvarpstækjum í Noregi, og hann sagði mér dæmisögu sem ég læt hér fylgja.   Á viðgerðarverkstæðum hlóðust upp biluð sjónvarpstæki sem flest höfðu hætt að verka rétt eftir að ábyrgð þeirra rann út.  Nýútskrifaðir raftæknimenn á einu verkstæðinu komust að því að samskonar bilun kom fram á flestum tækjanna.  Það voru svokallaðir „þéttar" á móðurborði tækjanna sem voru farnir.   Þeir töldu fulla ástæði til að skipta um þessa þétta til að bjarga rándýrum tækjunum og spara viðskiptavinum sínum þannig stórfé.  Þar sem ekki virtist vera hægt að fá þessa þétta frá framleiðanda tækjanna tóku þeir sig til og nýttu kunnáttu sína til að búa þéttana til.

Nokkrum mánuðum síðar höfðu fyrirspurnir þeirra til framleiðandans og skyndilega lækkaðar sölutölur nýrra sjónvarpstækja á starfssvæði viðgerðarmannanna leitt til viðbragða frá framleiðandanum.  Nú brá svo við að þéttar á móðurborðum tækja frá honum voru ekki lengur umskiptanlegir.   Sem sagt... tækin frá þessum framleiðanda áttu bara ekki að endast lengur en hentaði skipulagðri markaðssetningu nýrra tækja.

Það er áleitin spurning hvort mengunarsvindlið hjá V.W. verksmiðjunum hafi ekki verið orðið þekkt hjá öðrum bílaframleiðendunum löngu áður en það komst í hámæli?  Hvort aðrir framleiðendur hafi ekki verið  í start holunum til að gera eins, eða jafnvel byrjaðir að ná í sinn hluta af Ameríska díseldraumnum frekar en að kæra samkeppnisbrot.

Nú verðum við að vona að Garðari takist sem best ætlunarverk sitt, en um leið verðum við að taka vel á móti slíkum frumkvöðli og láta umhverfi okkar vita að við kunnum að meta vilja hans og kjark.  Það verður hans besta vörn gegn tilraunum  „jöfranna" í hópi ráðandi framleiðenda, til að bregða fyrir hann fæti.   N1. á þakkir skildar fyrir þann stuðning sem forráðamenn þess fyrirtækis hafa þegar sýnt Garðari og vonandi feta fleiri í þau fótspor.




Skoðun

Sjá meira


×