Skoðun

Að lækka byggingarkostnaðinn. Lausnin fundin

Árni Hermannsson skrifar
Aldrei sem nú hefur verið jafn erfitt fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið. Öllum er ljóst hvað veldur: himinháir vextir, óhagkvæmni smæðarinnar og öfgafull byggingalöggjöf. Það mun alkunna að byggingalöggjöfin nýja er ættuð frá Þýskalandi sem og flest sem frá Evrópusambandinu kemur. Legið hefur lengi fyrir að Englendingar ætla að fara eftir henni, Frakkar skilja hana illa og Ítalir og Spánverjar hafa aldrei heyrt á hana minnst (mun þetta gilda um fleiri reglur sambandsins)!

Á Íslandi eftir bankahrunið var ákveðið að endurskoða gömlu byggingalöggjöfina og innleiða nýjasta nýtt frá Evrópusambandinu. Að því komu þeir opinberir aðilar í byggingageiranum sem höfðu náttúrulega ekkert að gera frá 2008 til 2012 og höfðu því nægan tíma til þess arna. Afrakstur þessa merka starfs er svo strangasta byggingalöggjöf í Evrópu og veldur því að byggingakostnaður er 20 prósentum hærri en hann þarf að vera. Þetta glæsilega útspil var því eitt rothöggið enn fyrir unga fólkið í landinu.

En viti menn! Í liðinni viku skyldi nú taka á vandanum og ráðherrar kölluðu saman til fundar alla þá sem að húsnæðis- og byggingamálum koma, og skyldi nú brjóta vandamálið til mergjar.

Aðalniðurstaða fundarins var sú að félagsmálaráðherrann leysti málið. Ráðherrann sagðist hafa komist að því að lækka mætti byggingakostnaðinn með því að allir aðilar sem að byggingum kæmu, myndu lækka kostnað sinn lítillega og tók sem dæmi að ef 15 aðilar kæmu að húsbyggingu og hver myndi nú lækka sinn kostnað um eitt prósent, þá væri hægt að lækka byggingakostnaðinn um heil 15 prósent! Gerðu ráðstefnugestir góðan róm að þessum frábæru tillögum ráðherrans!

Menntamálaráðherrann hefur verið að bisa við að bæta lestrarkunnáttu ungmenna í landinu en nú býðst honum á næsta ríkistjórnarfundi fágætt tækifæri til að bæta samfélagið, sem sé að kenna félagsmálaráðherranum prósentureikning!




Skoðun

Sjá meira


×