Körfubolti

Körfuboltakvöld: Þrennan sem aldrei varð | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir í Domino's körfuboltakvöldi hrifust mjög af frammistöðu hins 18 ára gamla Kára Jónssonar í öruggum sigri Hauka á Snæfelli í 1. umferð Domino's deildarinnar.

Kári skoraði 14 stig, tók 11 fráköst og gaf átta stoðsendingar í leiknum og vantaði því einungis tvær stoðsendingar til að ná þrennunni svokölluðu.

Í viðtali eftir leikinn kvaðst hann ekki hafa verið ósáttur með að hafa verið tekinn út af í 4. leikhluta þrátt fyrir að eiga möguleika á að ná þrennunni en viðurkenndi að það hefði vissulega verið gaman að ná þeim áfanga.

Sérfræðingar Körfuboltakvöldsins í gær, þeir Jón Halldór Eðvaldsson og Fannar Ólafsson, botnuðu lítið í þeirri ákvörðun Ívars Ásgrímssonar, þjálfara Hauka, að kippa Kára af velli.

„Þetta er algjört bull!“ sagði Fannar. „Þú ert með son eins besta leikstjórnanda sem Ísland hefur alið (Jóns Arnars Ingvarssonar), drengurinn er að fara að setja sína fyrstu þrennu og þú leyfir honum ekki að spila síðustu 10 mínúturnar. Hvaða bull er þetta?!“ spurði Fannar forviða. Jón Halldór var sömu skoðunar.

„Ég tek algjörlega undir þetta. Ég veit ekki hvort Ívar hafi gleymt honum, það gæti verið, en í guðanna bænum vertu á tánum og láttu drenginn fá þrennuna.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×