Íslenski boltinn

Emil leikmaður ársins að mati leikmannana | Höskuldur efnilegastur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Emil með viðurkenningarskjöld og Icelandair-hornið í gær.
Emil með viðurkenningarskjöld og Icelandair-hornið í gær. Mynd/KSÍ

Leikmenn Pepsi-deildarinnar völdu Emil Pálsson, miðjumann FH, sem besta leikmann Pepsi-deildarinnar en þetta var tilkynnt í gær.

Hinn 22 ára gamli Emil lék stórt hlutverk í liði FH sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum.

Emil hóf tímabilið á láni hjá Fjölni á lánssamningi og lék frábærlega í herbúðum Grafarvogsliðsins en hann var kallaður aftur í lið FH þann 25. júlí síðastliðinn eftir meiðsli Sam Hewson og var honum hent beint inn í liðið.

Emil lék stórt hlutverk í FH-liðinu það sem eftir lifði sumars en hann lék alls 12 leiki fyrir FH í Pepsi-deildinni í sumar, þar á meðal alla leikina þegar FH vann sjö leiki í röð og átta af níu leikjum. Skoraði hann í þeim fjögur mörk en hann skoraði oft mikilvæg mörk fyrir FH í sumar.

Höskuldur með verðlaunin í gær. Mynd/KSÍ

Þá var Höskuldur Gunnlaugsson, leikmaður Breiðabliks, valinn efnilegasti leikmaðurinn í Pepsi-deildinni af leikmönnum deildarinnar.

Höskuldur sem er fæddur árið 1994 kom upp úr unglingastarfi félagsins en hann lék 20 leiki í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði í þeim 6 mörk.

Missti hann aðeins af tveimur leikjum vegna veikinda í sumar en Höskuldur greindist með hettusótt í júní.

Þá var tilkynnt í gær að 1107 áhorfendur mættu að meðaltali á hvern leik sem er besta meðaltalsaðsókn frá árinu 2011.

Flestir mættu að meðaltali á leiki FH, 1925 en flestir mættu á leik FH og Breiðabliks í 9. umferð, alls 2843.

Flestir áhorfendur mættu á fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í ár en 10.305 mættu á leikina í fyrstu umferð á meðan aðeins 3131 mættu á lokaumferðina sem fór fram í gær.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.