Viðskipti innlent

Fyrsta „smurbrauðsjómfrúin“ leggur svuntuna á hilluna

Heimir Már Pétursson skrifar
Jakob Jakobsson,  fyrsti karlmaðurinn sem útskrifaðist með þann virðulega titil "smurbrauðsjómfrú" í Danmörku og rekið hefur veitingastaðinn Jómrúna í Reykjavík með eiginmanni sínum Guðmundi Guðjónssyni í tæp 20 ár, leggur brátt svuntuna á hilluna.

En það þýðir ekki að þar með heyri Jómfrúin sögunni til því Jakob og Guðmundur hafa selt staðinn til veitingahúsafjárfestanna Birgis Bieltvedt og eiginkonu hans Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur og sonar Jakobs, nafna hans Jakobs Einars, sem sjá munu um reksturinn í framtíðinni. Stöð 2 leit við hjá Jómfrúnum í dag.

Þegar Jakob eldri var spurður að því hve mörg smurbrauð hann hefur selt á þessum tuttugu ára ferli sagðist hann aldrei hafa tekið það saman en taldi upp á, og studdist við "lauslega útreikninga", að hvert mannsbarn á Ísland hefði komið inn á Jómfrúna um fimmtíu sinnum.

Hann og Guðmundur höfðu íhugað það að láta staðar numið með reksturinn og þegar Jakob yngri var tilbúinn að stíga inn í hann létu þeir slag standa.

Jakob Einar sagðist vera nánast uppalinn á staðnum frá unglingsaldri og er spenntur fyrir framhaldinu. Spurður hvort hann sjái fyrir sér einhverjar breytingar á rekstrinum svaraði hann: „Við ætlum í fyrsta lagi ekki að breyta til að breyta en við sjáum fyrir okkur að reyna að efla kannski reksturinn að einhverju leyti. Lengja opnunartímann sem ég held að verði vel liðið hjá flestum af okkar kúnnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×