Viðskipti innlent

Fyrsti staðurinn tekur 50 manns í sæti

Fyrsti Dunkin´ Donuts staðurinn á Íslandi verður opnaður á Laugavegi 3 klukkan níu í fyrramálið. Líkt og greint hefur verið frá verða fleiri staðir opnaðir siðar eða sextán á næstu fimm árum. Dunkin keðjan hefur verið í örum vexti undanfarin ár en rúmlega 11.300 staðir eru starfræktir í 36 löndum víða um heim og sækja meira en 5 milljónir viðskiptavina staðina á hverjum einasta degi.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Dunkin´ Donuts á Íslandi, er spenntur fyrir opnuninni. „Það er ekki hlaupið að því að opna stað sem tilheyrir svona stóru og sterku vörumerki. Fylgja þarf ákveðnum stöðlum og þó svo að maður hafi frjálsar hendur í einhverjum tilvikum er þetta að mörgu leyti ansi klippt og skorið og verður líklega að vera það þar sem að nýr eða endurbættur Dunkin´ Donuts staður er opnaður einhvers staðar í heiminum á 12 klukkustunda fresti. Þau hjá Dunkin ættu því að vera með það á hreinu hvernig er best að standa að þessu,“ segir hann.

Staðurinn á Laugavegi tekur 50 manns í sæti. „Við bjóðum upp á kleinuhringi og bakkelsi, eins og gefur að skilja, en verðum einnig með hollari veitingar fyrir þá viðskiptavini okkar sem slíkt kjósa,“ segir Árni.

Komið hefur fram að fyrstu 50 sem mæta í röðina fá klippikort og geta með því innleyst kassa með 6 kleinuhringjum einu sinni í viku í eitt ár.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.