Körfubolti

Íslandsvinir á ferð með hollenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Dourisseau fagnar Jóni Arnóri Stefánssyni þegar KR var búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn vorið 2009.
Jason Dourisseau fagnar Jóni Arnóri Stefánssyni þegar KR var búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn vorið 2009. Vísir/Daníel
Íslenska karlalandsliðið mætir tveimur Íslandsvinum þegar liðið spilar tvo landsleiki gegn Hollandi á föstudag og sunnudag.

Bæði liðin eru undirbúa sig fyrir Evrópukeppnina í næsta mánuði þar sem Ísland leikur í B-riðli í Berlín á meðan Holendingar leika í C-riðli í Zagreb gegn Króatíu, Makedóníu, Georgíu, Grikklandi og Slóveníu.

Fyrri leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn kl. 19.15 föstudaginn 7. ágúst. Liðin æfa svo laugardag og hvílast og leika seinni leikinn sín á milli í Laugardalshöllinni sunnudaginn 9. ágúst kl. 16.00.

Þetta eru síðustu landsleikir íslenska liðsins hér heima en liðið fer á tvö æfingamót síðar í ágúst fyrir brottför til Þýskalands.

Í hollenska hópnum eru meðal annars fyrrum NBA-leikmaðurinn og fyrrum samherji Jóns Arnórs Stefánssonar, Henk Norel, en þeir léku saman hjá CAI Zaragoza á Spáni.

Einnig eru þar tveir íslandsvinir sem leikið hafa hér á landi. KR-ingurinn Jason Dourisseau (2008-2009) er í hópnum sem og Sean Cunningham sem lék með Tindastól (2010-2011) og eru þeir báðir á leið til landsins að nýju.

Jason Dourisseau varð Íslandsmeistari, deildarmeistari og fyrirtækjabikarmeistari með KR-liðinu veturinn 2008-09 en þá léku einnig með liðinu þeir Jón Arnór Stefánsson og Jakob Sigurðarson.

Dourisseau var með 16,7 stig, 7,6 fráköst og 2,7 stoðsendingar að meðaltali með KR-liðinu í úrvalsdeildinni 2008-2009 tímabilið.

Sean Cunningham var með 15,5 stig, 5,0 fráköst og 4,9 stoðsendingar að meðaltali með Tindastólsliðinu í úrvalsdeildinni 2010-11 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×