Enski boltinn

Pellegrini: Sterling á ekki skilið gagnrýni fyrir að vilja breyta um umhverfi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sterling í leik með City.
Sterling í leik með City. vísir/getty
Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, segir að Raheem Sterling, nýjasti leikmaður liðsins, hafi aðlagast mjög vel. Pellegrini segir að Sterling eigi ekki skilið gagnrýni fyrir að vilja breyta um umhverfi.

„Hann hefur aðlagast vel. Hann vildi koma hingað, hann vildi nýja áskorun. Ég held að hann eigi ekki skilið gagnrýni fyrir það," sagði Pellegrini við fjölmiðla.

„Hann hefur unnið vel og það er auðvelt fyrir góða leikmenn að aðlagast góðum liðum. Ég held að við munum vera með árangursríkan leikmann þetta árið."

Sergio Aguero kom seint til móts við City eftir Suður-Ameríkukeppnina og því gæti verið tækifæri fyrir Wilfried Bony að byrja sem fremsti maður þeirra bláklæddu á morgun.

„Bony er mjög góður leikmaður. Hann var óheppinn á síðustu leiktíð því hann byrjaði á því að fara í Afríkukeppnina og eftir það var hann meiddur í einn og hálfan mánuð."

„Við erum með lið til að berjast um alla fjóra titlana sem í boði eru. Ég held að Bony verði mikilvægur leikmaður í hópnum," sagði Pellegrini að lokum, en City mætir WBA annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×