Viðskipti innlent

Siðlaus krafa að gera launamenn að verktökum

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Trúnaðarmaður starfsmanna í álverinu í Straumsvík, Gylfi Ingvarsson, segir kröfur um að hundrað starfsmenn fyrirtækisins verði verktakar siðlausar.

„Eigendur fyrirtækisins hafa sett þá forgangskröfu að áður en verði gengið að öðrum atriðum kjarasamnings þá verði þeir að fá heimild til að bjóða út störf sem eru unnin af starfsmönnum fyritækisins, samkvæmt þessari upptalningu þá er það okkar mat  að um sé að ræða hátt í 100 störf,“segir Gylfi og segir að auki kröfu stjórnenda Ísal siðlausa. Stjórnendur hafi tekið slæmar ákvarðarnir sem bitnuðu á starfsfólki og nú bitni afleiðingar þeirra á starfsmönnum með verktöku og lægri launum. 

„Þetta er eiginlega finnst mér siðlaust af hálfu eigenda fyrirtækisins að setja fram svona kröfur og ég tala nú ekki um í framhaldi af því að fyrirtækið er búið að fara í gegnum miklar hremmingar sem byggja fyrst og fremst á ákvörðun stjórnenda og eigenda um tæknibreytingar og annað slíkt sem ekki hafa gengið eftir sem skyldi.“

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson segir kröfurnar þýða fækkun starfa og lægri laun. „Það er ljóst að rýmka þetta ákvæði og heimila þá meiri undirverktöku mun bæði þýða fækkun starfa fastra starfsmanna en vafalaust líka þrýsta á laun. Vegna þess að það er ekkert launungarmál að launakjör starfsmenna Ísal eru betri en gengur að gerast á meðan að útboð myndi vera á forsendu almennra samninga.“

Hann minnir á að það var að ósk Ísal að tryggja starfsöryggi við upphaf rekstrar. „Það var að ósk Ísal að vera með svolítið lokað umhverfi. Það var þannig í upphafi þessarar verksmiðju.

Líka hvað varðar afgreiðslu kjarasamninga og annað. Það var ýmislegt sem fyrirtækið fékk í staðinn. Starfsmenn fengu líka ýmis ákvæði þar á meðal að þeir stæðu ekki frammi fyrir svona hótunum.

Sjónarmið stjórnenda fyrirtækisins eru þau að fyrirtækið búi við einna þrengstu skorður allra fyrirtækja á Íslandi varðandi heimildir til verktöku. Það sé prinsipp mál að hafa leyfi til bjóða út fleiri afmarkaða þætti sem eru utan kjarnastarfsemi fyrirtækisins.  

Álverið í Straumsvík er í eigu Rio Tinto Alcan, eins stærsta álframleiðanda heims, en víða um heim berjast starfsmenn Rio Tinto Alcan fyrir betri kjörum og starfsöryggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×