Körfubolti

Kristrún, Guðrún Ósk og Signý í Skallagrím

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Ósk Ámundadóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og Signý Hermannsdóttir í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld.
Guðrún Ósk Ámundadóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og Signý Hermannsdóttir í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld. Mynd/Úr einkasafni

Kristrún Sigurjónsdóttir, Guðrún Ósk Ámundadóttir og Signý Hermannsdóttir hafa ákveðið að fara allar í Skallagrím í Borgarnesi og hjálpa liðinu að komast upp úr 1. deildinni næsta vetur.

Kristrún og Guðrún verða leikmenn liðsins en Signý verður hluti af þjálfarateymi liðsins sem keppir við Breiðablik, Njarðvík, Þór Akureyri og Fjölnir um sæti í Dominos-deildinni. Hver verður þjálfari kemur ekki í ljós fyrr en seinna.

Allar hafa þessar þrjár spilað með landsliðinu og unnið auk þess marga stóra titla á löngum ferli. Kristrún er þrítug en Guðrún 28 ára. Þær spiluðu lengi saman í Haukum en hafa ekki verið liðsfélagar síðustu árin.

Kristrún hefur spilað með Val undanfarin fjögur ár en þar áður með Hamar og Haukum þar sem hún var fyrirliði Íslandsmeistaraliðs Hauka 2009 auk þess að vinna fjóra stóra titla með Haukum frá 2005 til 2007.

Guðrún Ósk Ámundadóttir kemur frá Haukum en hún er úr Borgarnesi og er því að koma heim. Guðrún var líka í KR og hefur unnið stóra titla með báðum félögum þar af bikarmeistaratitilinn fimm sinnum.

Signý er búin að leggja skóna á hilluna fyrir nokkru en hún er þriðja leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi. Signý vann titla með bæði KR og ÍS á sínum ferli. Þetta er hennar fyrsta reynsla sem þjálfari í meistaraflokki en hún hefur þjálfað yngri flokka hjá Val þar sem hún lék bæði fyrstu og síðustu leiki sína á ferlinum.

Skallagrímur hefur ekki spilað í efstu deild í kvennakörfuboltanum í 40 ár en eftir þennan góða liðstyrk gæti sú langa bið verið á enda næsta vor.

Skallagrímsliðið ætlar sér upp í efstu deild í fyrsta sinn í fjóra áratugi. Mynd/Úr einkasafni


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.