Formúla 1

Hamilton vill að allir aðrir en Rosberg vinni keppnir

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Rosberg hefur verið í góðu formi undanfarið sem virðist angra Hamilton.
Rosberg hefur verið í góðu formi undanfarið sem virðist angra Hamilton. Vísir/Getty
Lewis Hamilton hefur viðurkennt að hann vilji frekar sjá ökumenn annarra liða vinna keppnir en liðsfélaga sinn hjá Mercedes, Nico Rosberg.

Viðtekin venja er í Formúlu 1 að fyrsti maður í mark fagni öðru sæti liðsfélaga síns. „Fullkomin helgi fyrir liðið,“ er algengur frasi en merkingarlaus.

Þegar samkeppni harðnar innan liða er tóninn sá sami út á við. Innan liðsins hins vegar andar oft köldu og raunin er þá sú að hvor ökumaður hugsar einungis um eigin hag.

Staðan hjá Mercedes er sú að nú þegar tímabilið er tæplega hálfnað er mjött á mununum. Einungis 10 stigum munar á Hamilton og Rosberg. Baráttan er því að harðna.

„Þú ert hluti af liði og það er beggja ökumanna að ná í sem flest stig fyrir liðið til að vinna keppni bílasmiða. Það er eini titillinn sem skiptir liðið máli,“ sagði Hamilton.

Ástæða þess að liðin horfa eingöngu til keppni bílasmiða er sú að sú keppni ákvarðar verðlaunafé sem liðin fá greitt.

„Báðir ökumenn vilja vinna og í því felst að vilja vinna liðsfélaga sinn,“ sagði Hamilton.

Orðum heimsmeistarans fylgir ferskleiki, Hamilton virðist leiður á klisjum sem margir ökumenn þylja upp nánast eins og æfðar.


Tengdar fréttir

Moss: Rosberg vinnur Hamilton aldrei

Formúlu 1 goðsögnin Stirling Moss segir að Nico Rosberg eigi ekki möguleika á að vinna Lewis Hamilton í baráttunni um heimsmeistaratitil á meðan þeir eru í sama liði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×