Viðskipti innlent

Snakktollur ríkisins ekki ólöglegur

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valli/Pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfum Haga, Aðfanga, Innness og Ölgerðarinnar eftir að fyrirtækin höfðuðu mál vegna gjaldtöku á innfluttum kartöfluflögum. Fyrirtækin sögðu gjaldtökuna vegna tolls á innflutningi á árunum 2010 til 2014 vera ólögmæta þar sem tollurinn á kartöflusnakk væri allt of mikill.

Tollurinn er 59 prósent. Alls fór Ölgerðin fram á tæplega 225 milljón króna greiðslu frá ríkinu. Innnes fór fram á rúmar 54 milljónir og Hagar og Aðföng fóru fram á meira en 32 milljónir króna.

Fyrirtækin sögðu meðal annars að tollur þessi samræmdist ekki kröfu um málefnalegan grundvöll skattheimtu hins opinbera. Fyrirtækin töldu að álagning þessi hafi verið byggð á svokallaðri verndarstefnu stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði.

Tollurinn sagður vera skerðing á eignarétti

„Til þess að unnt sé að réttlæta svo háa gjaldtöku með þessum hætti þurfi eitthvert verndarandlag, þ.e. einhver innlend búvöruframleiðsla, að vera fyrir hendi. Í tilviki kartöflusnakks sé hins vegar ýmist mjög lítil eða engin slík framleiðsla fyrir hendi og því ekkert sem þarfnist verndar,“ segir í málsástæðum og lagarökum fyrirtækjanna.

Þar að auki töldu fyrirtækin að tollurinn væri í bága við ákvæði stjórnarskrár og grundvallarreglur stjórnskipunar- og skattaréttar. Því væri ekki um að ræða heimila skattheimtu heldur ólögmæta skerðingu á eignarrétti og atvinnufrelsi stefnenda.

Ríkið vísaði því á bug að önnur sjónarmið en almenn markmið skattlagningar, þ.e. að afla ríkinu tekna til að standa undir útgjöldum sínum, búi að baki verðtolli á innfluttu snakki.

Héraðsdómur hafnaði rökum fyrirtækjanna og sýknaði ríkið af öllum skaðabótakröfum þeirra. Hverju fyrirtæki var gert að greiða 750 þúsund krónur í málskostnað. Dóma Héraðsdóms Reykjavíkur má sjá hér, hér og hér.


Tengdar fréttir

Allt að 59% verndartollur á kartöflusnakki

Háir tollar eru lagðir á kartöflusnakk sem kemur innflutt til landsins. Hins vegar eru engir tollar á snakk sem gert er úr maískorni. Örfáir aðilar á Íslandi framleiða kartöflusnakk og þá úr innfluttu hráefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×