Viðskipti innlent

"Viðskiptin báru öll einkenni blekkinga og sýndarmennsku“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ákæruvaldið telur að viðskiptin hafi byggt á sýndarmennsku og blekkingum. Þá hafi fjármunum Kaupþings verið stefnt í verulega hættu þar sem veð fyrir lánunum var tekið í bréfunum sjálfum. Fjórmenningarnir neita allir sök.
Ákæruvaldið telur að viðskiptin hafi byggt á sýndarmennsku og blekkingum. Þá hafi fjármunum Kaupþings verið stefnt í verulega hættu þar sem veð fyrir lánunum var tekið í bréfunum sjálfum. Fjórmenningarnir neita allir sök. Vísir/Valli
Björn Þorvaldsson, saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, hélt áfram að flytja málflutningsræðu sína eftir hádegi í dag. Hann fjallar nú um þann hluta ákærunnar sem snýr að sölu á hlutabréfum Kaupþings til eignarhaldsfélaganna Holt, Desulo og Mata á árinu 2008.

Eignarhaldsfélögin keyptu öll stóra hluti í bankanum fyrir marga milljarða króna en kaupin voru að fullu fjármögnuð af bankanum sjálfum.

Eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrveandi stjórnarformaður bankans, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, allir ákærðir fyrir sölu bréfanna og lánin sem félögunum voru veitt.

Ákæruvaldið telur að viðskiptin hafi byggt á sýndarmennsku og blekkingum. Þá hafi fjármunum Kaupþings verið stefnt í verulega hættu þar sem veð fyrir lánunum var tekið í bréfunum sjálfum. Fjórmenningarnir neita allir sök.

„Þurfti að losa bréf af bókum“

Saksóknari vill meina að Kaupþing hafi selt eignarhaldsfélögunum eigin hlutabréf vegna þess að bankinn þurfti að losa sig við bréfin. Bankinn mátti samkvæmt lögum eiga allt að 10% í sjálfum sér en hefði þurft að flagga í Kauphöllinni ef hlutfallið hefði farið yfir 5%.

Ákæruvaldið telur að stjórnendur bankans hafi ekki viljað flagga og því „þurfti að losa bréf af bókum.“ Þar af leiðandi hafi ekki legið viðskiptalegar forsendur að baki sölu hlutabréfanna.

Björn sagði liggja fyrir í málinu að Hreiðar Már og Sigurður hefðu lagt mikið kapp á að finna hluthafa fyrir bankann.

Þá hafi það verið stefna bankans að selja stöndugum hluthöfum bréf í bankanum gegn því að lánað væri fyrir kaupunum og sagði saksóknari kaup Holt og Desulo endurspegla þessa stefnu.

Máli sínu til stuðnings vísaði Björn til framburðar Ingólfs þar sem hann var spurður út í hver hefði átt hugmyndina um stór viðskipti á borð við sölurnar til Holt, Mata, Desulo og Al Thani.

Sagði Ingólfur að það hefði ekki verið nein sérstök hugmynd heldur hafi staða bankans verið orðin talsvert mikil í eigin bréfum.

„Menn þurfa bara að passa upp á það að ef þeir ætla ekki að eiga of mikið í eigin bréfum þá þarf að selja bréf.“

Allir aðilar á markaði blekktir

Saksóknari sagði það hafið yfir allan vafa að viðskipti Holt, Mata og Desulo hafi verið framkvæmd vegna stefnu Hreiðars, Sigurðar og Ingólfs og að undirlagi þeirra hafi Magnús borið tilboð undir eigendur félaganna: að þeir keyptu hlutabréf í Kaupþingi með fullri fjármögnun bankans.

Að mati ákæruvaldsins voru hlutabréfakaup eignarhaldsfélaganna þriggja til þess fallin að gefa eftirspurn eftir hlutabréfum í Kaupþingi ranglega til kynna. Þá hafi allir aðilar á markaði verið blekktir vegna þess að fjármögnun kaupanna var ekki þekkt.

„Markaðurinn vissi ekki að kaupin voru að fullu fjármögnuð af bankanum sjálfum og þar af leiðandi með engri áhættu fyrir kaupendurna. [...] Viðskiptin báru öllu einkenni blekkinga og sýndarmennsku,“ sagði saksóknari og hafði svo þetta að segja um tilkynningar vegna sölu hlutabréfanna til Kauphallar:

„Með [tilkynningunum] er kannski verið að gefa réttar upplýsingar um viðskiptin, en ef aðrar upplýsingar hefðu fylgt með, til dæmis að bankinn væri að lána að fullu fyrir kaupunum og að engir peningar voru að koma inn í bankann, nú þá lá fyrir að fjárfestar hefðu fengið allt aðra og verri mynd af viðskiptunum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×