Viðskipti innlent

Telur að Sigurður Einarsson hafi játað markaðsmisnotkun fyrir dómi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Þorvaldsson og Sigurður Einarsson.
Björn Þorvaldsson og Sigurður Einarsson. Vísir/Vihelm/Daníel
Björn Þorvaldsson, saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, telur að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans hafi játað markaðsmisnotkun með framburði sínum fyrir dómi fyrir nokkrum vikum.

Er Sigurður, ásamt öðrum fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum bankans, meðal annars ákærður fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi en fyrir liggur í málinu að eigin viðskipti bankans keyptu mörg bréf í bankanum sjálfum á ákærutímabilinu. Vill saksóknari meina að það hafi verið gert til að koma í veg fyrir eða hægja á lækkun hlutabréfanna.

Sagði Björn Sigurð hafa lýst því fyrir dómi að það hefði verið eðlilegt að Kaupþing keypti eigin bréf þegar það var söluþrýstingur. Það hafi bankinn gert svo að fjárfestar gætu alltaf gengið að þí að þeir gætu selt bréf í Kaupþingi og þannig hefði verðmæti bankans aukist.

Um þessi viðskipti sagði saksóknari:

„Gallinn er bara sá að slík viðskipti eru ekki á viðskiptalegum forsendum heldur er verið að gefa framboð á bréfunum misvísandi til kynna.“

Þá sagði Björn að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefði í greinargerð sinni til dómsins einfaldlega lýst markaðsmisnotkun.

Vísaði saksóknari til þess að í greinargerðinni kæmi fram að útgefandi hlutabréfa yrði að vera með viðskiptavakt í eigin bréfum því hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi væri svo lítill. Það væri því ekki næg eftirspurn og markaðurinn því ekki fær um að mynda rétt verð hlutabréfanna.

Vill saksóknari meina að slík viðskiptavakt útgefanda hlutabréfa hafi verið ólöglegt inngrip í markaðinn, til þess fallið að gefa eftirspurn eftir hlutabréfum í Kaupþing ranglega og misvísandi til kynna og því „einfaldlega refsivert“, eins og hann komst að orði fyrir dómi í dag.

„Markaðurinn var blekktur og ákærðu gerðust sekir um markaðsmisnotkun allt ákærutímabilið. Þetta er einfaldlega skólabókardæmi um markaðsmisnotkun,“ sagði Björn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×