Enski boltinn

Wenger: Vanvirðing hjá Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wenger og Mourinho tókust á á hliðarlínunni í október síðastliðnum.
Wenger og Mourinho tókust á á hliðarlínunni í október síðastliðnum. Vísir/AFP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, lýsti óánægju sinni með ummæli sem hann Jose Mourinho, kollegi sinn hjá Chelsea, lét falla eftir leik liðanna um síðustu helgi.

Liðin skildu jöfn í markalausum leik og Chelsea færðist nær enska meistaratitlinum sem liðið getur tryggt sér um helgina.

Stuðningsmenn Arsenal sungu um „leiðinlegt“ lið Chelsea (e. boring, boring Chelsea) í leiknum og Mourinho brást við því á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Maður styður þetta félag og bíður svo í mörg ár eftir meistaratitli. Það er mjög leiðinlegt,“ sagði Portúgalinn umdeildi.

Wenger tjáði sig um málið á blaðamannafundi í dag. „Aðalmálið er að knattspyrnustjórar beri virðingu fyrir öðrum knattspyrnustjórum. Sumir verða að bæta sig í því.“

„Það eru allir að glíma við sín innri vandamál og ég er að glíma við mín. Það er nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×