Enski boltinn

Rio ber virðingu fyrir afrekum Terry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry er á góðri leið með að verða Englandsmeistari með Chelsea í fyrsta sinn síðan 2010.
John Terry er á góðri leið með að verða Englandsmeistari með Chelsea í fyrsta sinn síðan 2010. Vísir/Getty
Rio Ferdinand, leikmaður QPR, segir að hann beri virðingu fyrir því sem John Terry, varnarmaður Chelsea, hefur afrekað á ferli sínum.

Ferdinand og Terry hafa ekki talast við síðan að sá síðarnefndi var sakaður um að hafa beitt bróður Rio, Anton, kynþáttaníði á sínum tíma.

Ferdinand viðurkennir í dálki sem hann ritar í The Sun í dag að það hafi reynst honum ómögulegt að gleyma atvikinu eða fyrirgefa Terry.

„Það er ekkert leyndarmál að ég og John Terry erum ekki miklir mátar. En það þýðir samt ekki að ég beri ekki virðingu fyrir honum sem knattspyrnumanni,“ skrifaði Rio.

„Frammistaða hans með Chelsea þetta tímabilið hefur verið ekkert minna en stórkostleg og ég hræðist ekki að segja það. John tók þá ákvörðun að hætta að spila með enska landsliðinu og Chelsea nýtur góðs af því.“

Fleiri hafa hrósað Terry sem hefur verið lykilmaður í toppliði Chelsea á tímabilinu og Jamie Carragher, sérfræðingur á Sky Sports, sagði að hann væri besti miðvörður sem spilað hefur í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×