Körfubolti

Sigmundur: Enginn ís með dýfu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigmundur er á leiðinni á EuroBasket 2015.
Sigmundur er á leiðinni á EuroBasket 2015. vísir/vilhelm
Sigmundur Már Herbertsson var valinn besti dómari Domino's deildum karla og kvenna á lokahófi KKÍ í Laugardalnum í hádeginu í dag. Þetta er í níunda sinn sem Sigmundur hlýtur þessi verðlaun.

„Það er alltaf gaman að fá verðlaun og þetta er mikil viðurkenning,“ sagði Sigmundur í samtali við Vísi í dag.

„Þetta eru líka verðlaun fyrir dómarahópinn í heild sinni. Að mínu mati stóðum við okkur vel í vetur og sérstaklega í úrslitakeppninni.

„Hópurinn steig upp í úrslitakeppninni. Auðvitað er eitt og annað sem má laga en heilt yfir er ég sáttur,“ sagði Sigmundur sem finnst erfitt að bera þetta ár saman við hans fyrri í dómgæslunni.

„Maður er alltaf að læra og reyna að bæta sig. Það er ekki mikil breyting milli ára en fréttirnir um að ég væri að fara á EuroBasket gáfu mér aukinn kraft og sjálfstraust,“ sagði Sigmundur en hann verður fyrsti íslenski dómarinn sem dæmir á lokamóti á vegum FIBA Europe.

Framundan hjá Sigmundi er undirbúningur fyrir EuroBasket sem hefst 5. september.

„Framundan hjá mér eru Smáþjóðaleikarnir hér á Íslandi í byrjun júlí. Svo fer ég á U-18 ára landsliðinu á mót í Austurríki og svo með með A-landsliðinu á tvö mót áður en EuroBasket hefst.

„Tuttugu vikna undirbúningur fyrir mótið er þegar hafinn. Hann fer fram á netinu og svo þarf ég að halda mér í formi. Svo hittist dómarahópurinn í byrjun september til að taka þrekpróf og hrista okkur saman,“ sagði Sigmundur sem getur ekki legið á meltunni í sumar.

„Það verður enginn ís með dýfu,“ sagði Sigmundur hlæjandi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×