Innlent

Höfðu ökumannsskipti á ferð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Karlmaður og kona höfðu ökumannsskipti á ferð þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlaði að stöðva þau. Karlinn var sá sem ók þegar lögreglumenn veittu bifreiðinni athygli en konan var undir stýri þegar þau voru stöðvuð. Bæði voru þau í annarlegu ástandi með útrunnin ökuréttindi. Þá fannst töluvert magn af fíkniefnum í bílnum. Konan er rúmlega tvítug og maðurinn þrítugur. Þau voru bæði vistuð fangageymslu og verða yfirheyrð þegar þau komast í ástand til þess.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar sem send var fjölmiðlum í morgun. Vaktin var heldur róleg ef marka má dagbókina.

Um klukkan hálf fimm var bifreið ekið á grindverk í Skeifunni og ók ökumaður af vettvangi. Við áreksturinn féll númeraplata bílsins af og tókst lögreglu þannig að hafa uppi á eigandanum. Umráðamaður bílsins var áberandi ölvaður þegar lögreglu bar að garði og var hann því handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann var vistaður í fangaklefa þar til hann verður í ástandi fyrir skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×