Enski boltinn

John Barnes mætir á árshátíð Liverpool-klúbbsins í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Barnes.
John Barnes. Vísir/Getty
Árshátíð Liverpoolklúbbsins á Íslandi verður haldin 14. mars næstkomandi og venju samkvæmt er heiðursgesturinn fyrrum leikmaður Liverpool.

Að þessu sinni er það John Barnes sem mætir til Íslands en hann lék með Liverpool á árunum 1987 til 1997. Þetta kemur fram á heimasíðu Liverpoolklúbbsins á Íslandi.

John Barnes varð enskur meistari með Liverpool 1988 og 1990 og var bæði tímabilin valinn knattspyrnumaður ársins í Englandi. 1988 var hann einnig valinn bestur af leikmönnum deildarinnar.

Margir telja að Barnes hafi skorað fallegasta markið í sögu enska landsliðsins gegn Brasilíu á Maracana-vellinum árið 1984.





John Barnes lék 314 deildarleiki með Liverpool á ferlinum og skoraði í þeim 84 mörk. Hann var enskur landsliðsmaður og spilaði 79 A-landsleiki frá 1983 til 1995.

Það var Kenny Dalglish sem keypti John Barnes frá Watford fyrir 900 þúsund pund í júní 1987 og þetta voru ein af bestu kaupunum í sögu félagsins.

Árið 2006 var John Barnes kosinn fimmti besti leikmaður Liverpool í sögunni af stuðningsmönnum félagsins en á undan honum voru þeir Kenny Dalglish, Steven Gerrard, Ian Rush og Robbie Fowler. Robbie Fowler kom einmitt á árshátíð Liverpoolklúbbsins á Íslandi í fyrra.

Hér að neðan má sjá Barnes fara á kostum með hljómsveitinni New Order þegar lagið World in Motion var tekið upp í aðdraganda HM 1990 á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×