Handbolti

Guðjón Valur: Í svona krísu tekur enginn síðasta skrefið

Arnar Björnsson í Doha skrifar
Fyrirliðinn, Guðjón Valur Sigurðsson, var sæmilega brattur þegar blaðamenn hittu landsliðsmennina í morgun.  Ég spurði fyrirliðann að því hvort andlega hliðin væri löskuð? „Það er von að þú spyrjir, það er líklegra en líkamlega hliðin.

Er ekki allt í lagi innan liðsins? „Jú við erum góðir og það eru engin rifrildi og ekkert ósætti í liðinu. Við erum sjálfir mest hissa á því hve miklar sveiflur eru í leik okkar. Við þurfum að laga þessar sveiflur því það er hálfdautt yfir þessu hjá okkur. Það gengur alls ekki“.

Er eitthvað sem þið sjáið á myndbandsfundunum sem þið getið lagað strax? „Já, það ætlum við að gera fyrir morgundaginn. Þær verða nokkrar og þú sérð þær í leiknum. Við tökum til í kollinum á okkur til þess að mæta tilbúnir á morgun“.

Hvort er það sóknarleikurinn eða varnarleikurinn sem er að klikka?

„Það er ekkert eitt. Við erum allir einhverjum prósentum frá okkar besta. Þá erum við hálfum metra of fljótir eða of seinir á staðina. Það skilur á milli í íþróttum og það verður að laga. Það byrjar á hugarfarinu af því að líkamarnir eru í lagi. Andinn innan hópsins er mjög góður, allir góðir félagar,“ segir Guðjón Valur.

„En þegar maður lendir í svona krísu og þegar menn byrja að efast, þá eru menn ekki að taka þetta síðasta skref sem þarf. Menn eru kannski að passa of mikið sinn mann í stað þess að loka svæðum. Þetta er ákveðið óöryggi sem búið er að læsast í kollinum á mönnum. Við þurfum að losa um það og ég hef trú á því að það takist. Við erum oft að taka rangar ákvarðanir, ekki bara í skotum heldur í mörgu öðru.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×