Handbolti

Guðjón: Auðvitað gerir læknirinn hrikaleg mistök í máli Arons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson lék ekki með íslenska landsliðinu í tveimur síðustu leikjum liðsins á HM í handbolta í Katar og Guðjón Guðmundsson eða Gaupi, handboltasérfræðingur Stöðvar 2 Sports, ræddi mál Arons í HM-kvöldi á Stöð 2 Sport í gær.

Hörður Magnússon, umsjónarmaður þáttarins, rifjaði það upp þegar Ólafur Stefánsson meiddist á æfingu á HM í Svíþjóð 2011. Þá var strax ákveðið að halda því leyndu eins lengi og mögulegt er.

„Þarna kemur læknir íslenska liðsins strax eftir Tékkaleikinn og gefur það út að Aron spili ekki næsta leik. Hvernig lítur þú á þetta mál í heild sinni," spurði Hörður Gaupa.



Sjá einnig:
Aron spilar ekki gegn Egyptum - verður líklega ekki meira með

„Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að segja eitthvað. Það var nánast allt vitlaust síðast þegar ég sagði að hann væri skyldugur að spila hefði hann heilsu til. Auðvitað gerir læknirinn hrikaleg mistök. Hann á ekki að vera gapa um þetta því þetta á að koma frá þjálfara liðsins," sagði Gaupi.

„Þjálfarinn á að segja að leikmaðurinn sé ekki klár. Ekki læknirinn því hann hefur ekkert með þetta að gera. Það var einhver feluleikur með þetta en við vitum það að Aron Pálmarsson lenti í líkamsárás,“ sagði Gaupi um líkamsárásina í miðbæ Reykjavíkur seint í desember..

„Hann kemur inn í liðið og er ekki búinn að ná sér og fær síðan högg í leiknum á móti Tékkum. Læknirinn kemur og segir í fjölmiðlum að hann sé með vægan heilhristing. Það er væntanlega hárrétt hjá lækninum því hann er með stöðugan höfuðverk," segir Guðjón og bætir við:

„Læknirinn metur það þannig að hann geti ekki leikið og við getum ekkert gert við því. Mér fannst það skrítið hvað menn voru hrikalega fljótir að gefa þetta út. Það var algjör óþarfi," sagði Guðjón.

Hörður benti síðan á það að læknir íslenska liðsins hafi komið fram daginn fyrir leikinn við Dani og talað um að það væri helmingslíkur á því að Aron Pálmarssyni spili. Þá var komið allt annað hljóð hjá honum en svo komu tíðindin í gærmorgun að Aron spili ekki leikinn um kvöldið.

Sjá einnig:Það er von með Aron - ekki útilokað að hann spili gegn Dönum

„Ég kannaði þetta í dag og var búinn að gera það áður. Sérfræðingar segja að ef hann er með höfuðverk þá getur hann ekki spilað. Þá er hann ekki leikfær og því alveg hárrétt ákvörðun að láta hann ekki spila," sagði Guðjón.

Það er hægt að sjá alla umræðuna um mál Arons Pálmarssonar í HM-kvöldinu hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Nyegaard: Ísland á ekki möguleika í danska liðið

Bent Nyegaard er þess fullviss að Danmörk vinni Ísland í leik liðanna á morgun í 16-liða úrslitum á HM. "Gott að fá Ísland í 16-liða úrslitum,“ segir einn helsti sérfræðingur Danmerkur um handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×