Viðskipti innlent

Þyrluskíðaferðir skapa grunn að þyrlurekstri á Norðurlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ásókn í þyrluskíðaferðir á Tröllaskaga er orðin slík að fyrirtækið Bergmenn þarf orðið tvær til þrjár þyrlur yfir vertíðina til að anna eftirspurn. Stofnandinn, Jökull Bergmann, telur að grundvöllur sé fyrir þyrlurekstri á Norðurlandi.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld er bærinn Klængshóll í Skíðadal inn af Dalvík heimsóttur en þar hefur byggst upp ein athyglisverðasta ferðaþjónusta landsins. Flogið er með ferðamenn á þyrlum upp á fjallstinda við Eyjafjörð þaðan sem þeir renna sér svo niður á skíðum.

Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður viðurkennir að þetta sé ein hættulegasta tegund afþreyingarferðaþjónustu en þyrlurnar séu í raun fljúgandi sjúkrabílar, með hjartastuðtæki og súrefni um borð og í raun allar græjur til að mæta nánast hvaða áfalli sem er. Þá væru þær björgunartæki sem gætu flutt fólk nánast hvaðan sem væri af Tröllaskaga á innan við 10-15 mínútum á sjúkrahús. Starfsmenn Bergmanna væru jafnframt sérþjálfaðir í fjallabjörgun, snjóflóðabjörgun og skyndihjálp.

Vertíðin stendur frá janúarlokum og fram í júní og þá er Jökull með um 20 starfsmenn og 2-3 þyrlur. Þyrlan sem sást í frétt Stöðvar 2 kemur frá Grænlandsflugi vegna mikillar grósku í þyrluferðamennsku hérlendis en Bergmenn eru í samstarfi við Norðurflug um þyrlur.

„Það væri klárlega mjög gott að vera með þyrlur á Norðurlandi. Það er alveg markaður fyrir það á sumrin, eins og í útsýnisflug með allt þetta skemmtiferðaskipafólk, og svo framvegis, - og svo þyrluskíðin á veturna. Það er kominn klárlega grundvöllur fyrir því að vera með þyrlur á Akureyri,“ segir Jökull og bætir við:  

„En það sem vantar aðallega á Akureyri eru björgunarþyrlur frá Landhelgisgæslunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×