Skoðun

Fornleifar þurfa ekki að koma á óvart

Oddgeir Isaksen og Orri Vésteinsson skrifar
Í sumar hafa fundist í miðbæ Reykjavíkur fornleifar frá sitthvorum enda Íslandssögunnar – skáli frá víkingaöld við Lækjargötu og hafnargarðar frá fyrri hluta 20. aldar neðan við Arnarhól. Í báðum tilfellum var ráðist í fornleifauppgröft vegna þess að fyrirhugað er að byggja á lóðunum og í báðum tilfellum hefur sprottið upp umræða um nauðsyn þess að varðveita minjarnar. Í báðum tilfellum hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdaaðilum lýsa yfir vilja til að nýta minjarnar með einhverjum hætti í fyrirhugaðri uppbyggingu. Hins vegar er ljóst að svigrúmið til að taka góðar ákvarðanir um slík mál er þröngt þegar fornleifarnar koma í ljós í miðju hönnunar- og framkvæmdaferli.

Þetta þarf ekki að vera svona. Að það skuli leynast hafnargarðar undir bílastæðunum við Tryggvagötu eru engin tíðindi. Hafnargarðar voru hlaðnir framan við Hafnarstræti á ýmsum tímum milli 1880 og 1940 og hlutar af þeim hafa áður komið fram við uppgröft. Til eru ljósmyndir og mælingauppdrættir frá fyrri hluta 20. aldar sem sýna nákvæmlega hvar garðarnir liggja og nóg er vitað um dýpt kjallara þeirra húsa sem byggð hafa verið á yngri fyllingum til að hægt sé að segja með góðri vissu hvar garðarnir hafa varðveist og hvar þeim hefur verið raskað.

Ólíkt hafnargörðunum hefði ekki verið hægt að vita fyrirfram að víkingaaldarskáli leyndist á lóðunum á mótum Lækjargötu og Skólabrúar en skálastæðið er hins vegar innan gamla túns Reykjavíkurbæjarins og í gömlum túnum má alltaf vænta fornleifa. Líkur á að rekast á fornleifar innan gamalla túna eru hundraðfalt meiri en utan þeirra. Ábyrg áætlanagerð um byggingaframkvæmdir í gömlu túni hlýtur því að ganga út frá þeim möguleika að fornleifar geti komið í ljós.

Kort Borgarsögusafns sem sýnir hvar leifar af hlöðnum köntum er að finna undir fyllingum við höfnina í Reykjavík.
Misbrestur

Á síðustu áratugum hefur verið unnið gríðarlegt starf við að kortleggja fornleifar á Íslandi, bæði þær sem sjást á yfirborði og eins hinar sem ekki sjást en heimildir eru til um. Borgarsögusafn Reykjavíkur heldur skrá um fornleifar í Reykjavík og býr að auki yfir mikilli þekkingu til að meta hvar áður óþekktar fornleifar geta leynst. Þekkingarskortur er því ekki ástæðan þegar fornleifar lenda í uppnámi vegna framkvæmda heldur misbrestur á að fyrirliggjandi þekking sé nýtt í undirbúningnum.

Stór veikleiki í kerfi okkar er að fyrir utan friðlýstar fornleifar – sem eru t.d. engar í miðbæ Reykjavíkur – tekur skipulagsgerð á Íslandi sjaldnast nokkurt mið af fornleifum eða menningarlandslagi. Frum­ákvarðanir um landnýtingu eru teknar án þess að slíkum verðmætum sé gaumur gefinn og þegar fornleifar koma svo í ljós – oft bara dögum eða vikum áður en framkvæmdir hefjast – getur valið aðeins staðið á milli þess að láta fornleifarnar fara eða hætta við framkvæmdirnar. Oftast eru það fornleifarnar sem verða undir í þeirri togstreitu. Ef framkvæmdaaðilar og leyfisveitendur vendu sig á að kynna sér þá þekkingu sem til er um fornleifar áður en byrjað er að hanna og grafa væri mun hægara um vik að varðveita og virkja þau verðmæti sem í fornleifum felast.




Skoðun

Sjá meira


×