Það er nú orðið endanlega ljóst að Ray Allen spilar ekki í NBA-deildinni í vetur.
Hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en það hefur verið sótt fast að honum að koma til baka. Meðal annars af LeBron James sem vildi fá hann til Cleveland.
„Ég hef nýtt síðustu mánuði í að fara vel yfir þessa hluti. Ég hef ákveðið að spila ekkert í vetur," sagði Allen en merkilegt nokk þá útilokar hann ekki að spila næsta vetur.
Allen er að verða fertugur í sumar en hann varð NBA-meistari með bæði Boston og Miami. Hann var tíu sinnum valinn í stjörnulið deildarinnar.
