Erlent

Angela Merkel sögð óánægð með að aukin völd séu að færast til Evrópuþingsins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jean Claude Juncker og Angela Merkel.
Jean Claude Juncker og Angela Merkel.
Kominn er upp ágreiningur milli öflugustu ríkja Evrópusambandsins um ráðningu forseta framkvæmdastjórnar sambandsins en engin eining er um skipun Jean Claude Juncker, sem þykir líklegasti kandídatinn í embættið. Þá er Angela Merkel sögð óánægð með að aukin völd séu að færast til Evrópuþingsins.

Christine Lagarde, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að hún sé að taka við embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Sá sem þykir líklegastur til að taka við af Jose Manuel Barroso er Jean-Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar.

David Cameron, forsætisráðherra Brelands, hefur varað við því að Bretar muni mögulega segja skilið við Evrópusambandið Claude Juncker verður kjörinn forseti framkvæmdastjórnarinnar en Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hefur opinberlega stutt Juncker.

Í vikuritinu Economist er því haldið fram að Merkel, sem þykir afar snjöll í pólitískri refskák, sé að fatast flugið. Ágreiningurinn um Juncker afhjúpi það. Þá sé deilan um skipun Juncker að leiða fram alvarlegan ágreining milli Bretlands og Þýskalands, tveggja af öflugustu ríkjunum innan sambandsins.

Ágreiningurinn á rætur í Lissabon-sáttmálanum frá 2009 en með honum voru aukin völd færð til Evrópuþingsins. Núna þarf aukinn meirihluti þeirra 751 þingmanna Evrópuþingsins að staðfesta skipun forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Í Economist er því haldið fram að Angela Merkel hafi spurt hver hafi sett þetta inn í sáttmálann, þegar hún áttaði sig á því hvað völd Evrópuþingsins eru mikil í skipun forseta framkvæmdastjórnarinnar, en svarið er, það gerði hún í raun sjálf.

Þessi breyting á skipun forseta framkvæmdastjórnarinnar er eitt af þeim ákvæðum sem lifðu frá stjórnarskrá Evrópusambandsins sem var felld í þjóðartkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi árið 2005. Í kjölfarið var horfið frá tillögu um stjórnarskrá fyrir sambandið.

Lissabon sáttmálinn var í raun soðinn saman úr ákvæðum þessarar stjórnarskrá og eitt af þeim ákvæðum sem komst í gegnum síuna var þessi ferill um skipun forseta framkvæmdastjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×