Ekki verður hægt að sækja um leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum og ráðstöfun séreignarsparnaðar á morgun, eins og stóð til.
Ríkisskattstjóri sagði í síðustu viku að endurskoða þyrfti dagsetningu á gildistöku laga um verðtryggingu verðtryggðra húsnæðislána. Til stóð að hægt yrði að sækja um niðurfellingu fimmtudaginn 15. maí en sagði ríkisskattstjóri þá dagsetningu ekki raunhæfa.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði hins vegar að dagsetningin væri raunhæf og þetta yrði ekki látið dragast. Allra leiða yrði leitað svo hægt væri að opna fyrir umsóknarferli á tilsettum tíma.
„Ég sé ekki annað en að hann geti verið tilbúinn með þetta 15. maí og hann verður eiginlega að gera það. Jafnvel þó það þýði yfirvinnu, þó fólk þurfi að vinna fram yfir miðnætti og um helgar,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtalsþættinum Návígi á ÍNN í síðustu viku.
Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, sagði í samtali við Vísi að líklega yrði opnað fyrir umsóknir á föstudag eða laugardag. „Mér sýnist þingið ekki klára þetta í dag. Málið er ekki á dagskrá fyrr en á morgun,“ segir Tryggvi Þór.
Landsmenn geta ekki sótt um niðurfellingu á morgun

Tengdar fréttir

„Þetta er mál sem ekki er hægt að láta dragast“
Sigmundur Davíð segir að ekki þurfi að endurskoða tímasetningu á gildistöku laga um verðtryggingu verðtryggðra húsnæðislána, landsmenn geti því sótt um skuldaniðurfærslu 15. maí.

Segir landsmenn ekki geta sótt um niðurfellingu þann 15. maí
Ríkisskattstjóri segir að endurskoða þurfi tímasetningu á gildistöku laga um verðtryggingu verðtryggðra húsnæðislána.

Segir aðgerðir ríkisstjórnar óréttlátar og óforsvaranlegar
Pétur Blöndal var gagnrýnin á skuldaniðurfellingaaðgerðir stjórnvalda og sagði þær óréttlátar.