Viðskipti innlent

Deilt um öll stóru verkefni Landsnets

Haraldur Guðmundsson skrifar
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, segist vona að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 geti hafist á næstu mánuðum.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, segist vona að framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 geti hafist á næstu mánuðum. Vísir/GVA

„Við höfum ekki getað farið í nauðsynlegar framkvæmdir vegna þess að það eru deilur um öll stærri verkefni okkar sem eiga að efla flutningskerfið hér á landi. Þessi verkefni hafa því tafist og það má áætla að kostnaður þjóðarbúsins vegna þess muni nema að meðaltali um sex milljörðum króna á ári næstu árin ef ekkert verður að gert,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets.



Fyrirtækið undirbýr nú fimm stór verkefni sem eiga að bæta flutningskerfi raforku og tryggja að íbúar og fyrirtæki á landsbyggðinni geti búið við sömu kjör og suðvesturhornið þar sem kerfið er sterkara.



Eitt verkefnanna snýr að áformum Landsnets og Vegagerðarinnar um að hefja umhverfismat á háspennulínu um Sprengisand og framkvæmdum við nýjan Sprengisandsveg. Verkefnið hefur verið harðlega gagnrýnt að undanförnu en fyrirtækinu bárust samtals 33 athugasemdir, þar sem áformin eru ýmist gagnrýnd eða studd, um drög að tillögu að matsáætlun vegna lagningar háspennulínunnar og vegarins. Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd hafa, ásamt öðrum, krafist þess að fyrirtækin falli frá áformunum og sagt þau fela í sér óafturkræf áhrif sem eigi eftir að kljúfa hálendið í tvennt.



Þyrfti að tvöfalda byggðalínuna

„Sprengisandslínan hefur þann kost að hún er stysta leiðin milli Norður- og Suðurlands og langhagkvæmasti kosturinn því þetta er einungis 220 kílómetra leið. Það er ýmislegt sem bendir til þess, ef maður horfir til varanlegra umhverfisáhrifa, að hún sé álitlegur kostur út frá umhverfismælikvörðum. Umræðan um hálendið er þó svolítið sérstök og meira tilfinningaleg og ímyndarlegs eðlis og að einhverju leyti byggð á hagsmunum þeirra sem vilja vera þarna og njóta náttúrunnar og öll þessi sjónarmið eru skiljanleg,“ segir Guðmundur.



Landsnet vill fara í framkvæmdir við Sprengisandslínuna vegna þess að byggðalínan, sem var tekin í notkun árið 1984, ber ekki lengur alla þá raforku sem flytja þarf á milli landshluta. Fari svo að línan um Sprengisand, sem á að kosta um 12 milljarða króna, verði ekki að veruleika, og þær tengingar við þá línu sem þyrfti að fara í á Norður- og Austurlandi, þá þyrfti að sögn Guðmundar að tvöfalda byggðalínuna.

„Þetta eru valkostir sem við erum að undirbúa og gera umhverfismat á ákveðnum þáttum til þess að menn geti rætt þetta á yfirvegaðri hátt en nú er. Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir í raun og veru um hvaða framkvæmdir verður ráðist í. Áður en það verður gert þarf að vega og meta valkostina og ná víðtækri sátt.“



Hin fjögur verkefnin sem einnig er deilt um tengjast áformum Landsnets um nýja háspennulínu frá Hafnarfirði og út á Reykjanes, svokallaða Suðurnesjalínu 2, og einnig Blöndulínu 3, Kröflulínu 3 og háspennulínu sem á að ná frá Kröflu til Akureyrar. Framkvæmdir við Suðurnesjalínuna hafa tafist og þá meðal annars vegna þess að ekki hefur fengist leyfi fyrir framkvæmdinni hjá öllum þeim sveitarfélögum sem línan á að liggja um.

„Við vonumst eftir því að geta farið fljótlega að vinna á Suðurnesjunum en hin málin eru komin styttra og ég á ekki von á að það komi verulegur skriður á þau fyrr en raforkulögin og þingsályktunartillagan um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína fara í gegn.“

Það tæki um þrjú ár að reisa háspennulínuna um Sprengisand. Reisa þyrfti vinnubúðir á hálendinu og verkið í heild myndi kostað um 12 milljarða króna.Vísir/Stefán

Helmingur raflína í jörðu 2020

Frumvarp um breytingar á raforkulögum, sem Guðmundur nefnir, var ásamt þingsályktunartillögunni lagt fram á Alþingi í haust af Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í frumvarpinu er kveðið á um hvernig standa eigi að gerð kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfisins. Samkvæmt tillögunni verður stefnt að því að samanlagt heildarhlutfall jarðstrengja í landshluta- og meginflutningskerfinu verði orðið að minnsta kosti helmingur af lengd allra raflína árið 2020. Hlutfallið á að vera komið upp í 80 prósent árið 2035.



Guðmundur fór í gær á fund atvinnuveganefndar Alþingis til að gera grein fyrir athugasemdum Landsnets varðandi frumvarpið og þingsályktunartillöguna. 



„Frumvarpið er niðurstaða úr málamiðlun á milli okkar og sjónarmiða sveitarfélaga og við styðjum það óbreytt. Grunnurinn á bak við þessi lög er að menn ætla í upphafi að vanda mjög vel til verka, þetta er þung og mikil áætlanagerð, og felur í sér mun vandaðri vinnubrögð en áður og samráð við alla hagsmunaaðila á fyrstu stigum málsins. Að okkar mati er mjög mikilvægt að öll þessi vinna fái einhverja niðurstöðu áður en lengra er haldið og við munum leggja áherslu á það,“ segir Guðmundur. 



Hann segist einnig vera ánægður með þingsályktunartillöguna og að hún innihaldi margar jákvæðar breytingar. Hann bendir á hversu stórt skref það sé að setja 80 prósent af öllum raflínum í jörðu en telur markmiðið raunhæft. 



„Það byggist á því að það er verið að horfa á raforkukerfið í heild og það er gríðarleg þróun í raflínum, bæði í dreifi- og flutningskerfinu, og það er jafnvel orðið hagkvæmara að setja línurnar í jörðu. Að öðru leyti höfum við ekki skoðun á því hversu langt menn eigi að ganga í því að veita aukið fjármagn í jarðstrengi því á hæstu spennu er það mun dýrara en á lægstu. Við höfum ekki skoðun á því hversu langt skal ganga, það er Alþingis að ákveða,“ segir Guðmundur og heldur áfram:



„En nái þessi mál í gegn verður það að okkar mati farsæll endir þar sem sátt ríkir um að gefið verði eftir í sambandi við umhverfið og að menn sætti sig þá við hærra flutningsverð.“ 



Lögin og þingsályktunartillagan hafa verið gagnrýnd fyrir að ganga ekki nógu langt í að tryggja innleiðingu jarðstrengja og að skerða þau skipulagsvöld sem sveitarfélög hafa þegar kemur að lagningu raflína. 

„Að okkar mati er það ekki rétt. Þarna er verið að auka mjög samráð við sveitarfélögin og alla hagsmunaaðila og rannsóknir og þróunarvinnuna og verið er að færa samráðið framar í ferlið en hefur verið.“



Tjónið eykst og eykst

Guðmundur segir að fyrrnefndur kostnaður þjóðarbúsins vegna flutningskerfisins eigi eftir að aukast ár frá ári.



„Kostnaður vegna rekstrartruflana mun halda áfram að vaxa og einnig vegna yfirlestunar, það er að segja þegar við erum að takmarka flutninginn. Einnig hefur þetta í för með sér að virkjanirnar koma ekki orkunni til þeirra sem nota hana og orkan sem tapast í kerfinu mun aukast,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að fyrirtæki og heimili mæti oft raforkuskorti með því að brenna olíu.



„Sem er stórt umhverfismál í sjálfu sér. Tjónið eykst og eykst ef ekkert verður að gert og það er ekki bara tjón Landsnets heldur einnig fyrirtækja, heimila og orkuframleiðenda sem verða fyrir truflunum.“ 

Einnig er mikilvægt, að sögn Guðmundar, að koma á stöðugleika í fjármálaumhverfi Landsnets. Fyrirtækið er í einokunarstöðu og Orkustofnun setur því tekjuramma og Guðmundur segir gjaldskrá Landsnets endurspegla það. 



„Það er sett þak á arðsemi okkar. Þessi mörk hafa ekki enn verið fest í sessi og við erum því ekki enn farin að sjá neinn stöðugleika í þessum ákvörðunum þrátt fyrir að fyrirtækið sé að verða níu ára gamalt. Það er mikilvægt fyrir okkur sem erum að stjórna fyrirtækinu að hafa fast land undir fótum svo að aðgerðir okkar verði markvissar. Arðsemin þarf að vera þess eðlis að við séum í stakk búin til að takast á við þau miklu verkefni sem fram undan eru.“ 



Eins og komið hefur fram tekur Guðmundur við starfi forstjóra Landsnets um næstu áramót af Þórði Guðmundssyni. Guðmundur hefur starfað hjá fyrirtækinu frá stofnun þess árið 2005 og vísar aðspurður í það að nýjum stjórnendum fylgi alltaf einhverjar breytingar. 



„Ég er búinn að vera lengi í þessum bransa og gjörþekki hann. Ég er að taka við góðu búi, reksturinn hefur verið góður og hér er mikið af hæfu starfsfólki. Ég vonast til þess að með nýjum tækjum, tólum og reglum og áherslum náum við að halda áfram og byggja kerfið upp til framtíðar og tryggja þá þennan mikilvæga hlekk því flutningskerfið er miðjan í þessari orkukeðju okkar. Hér á Íslandi er algjörlega einstakt tækifæri í að byggja upp raforkukerfi sem er algjörlega endurnýjanlegt en þá þarf að efla flutningskerfið svo að keðjan gangi vel smurð.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×