Skoðun

Yfirveðsett heimili í greiðsluerfiðleikum

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Í kjölfar mikillar umræðu um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar og áhrif hennar á yfirveðsett heimili, vill umboðsmaður skuldara vekja sérstaka athygli á úrræði greiðsluaðlögunar, sem lausn fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Úrræðið, sem er á ábyrgð umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum nr. 101/2010, felur í sér frjálsar samningaviðræður við kröfuhafa um skuldir, þar sem leitast er við að ná samningum um greiðsluaðlögun.

Við lok greiðsluaðlögunar geta einstaklingar með yfirveðsettar eignir óskað eftir afmáningu veðréttinda hjá embætti sýslumanns. Um er að ræða lögbundið ferli, þar sem veðkröfur sem falla utan matsvirðis fasteignar eru fjarlægðar af veðbandayfirliti og hvíla því ekki lengur á fasteigninni. Einstaklingar þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði til þess að sýslumaður samþykki beiðni um afmáningu. Afmáning ein og sér felur ekki í sér eftirgjöf á kröfum heldur missa kröfurnar veðréttindi í fasteigninni. Í samningum um greiðsluaðlögun er hins vegar almennt samið um hlutfallslega eða fulla eftirgjöf á þeim veðkröfum sem afmáðar verða, í samræmi við eftirgjöf á öðrum samningskröfum.

Almennt góð niðurstaða

Meðalfjárhæð afmáðra veðkrafna í þeim málum sem þegar hafa verið staðfest af hálfu sýslumanna er um 8,5 milljónir kr. Samið hefur verið um eftirgjöf á þessum kröfum í greiðsluaðlögunarsamningum og er meðaleftirgjöfin nú um 93%. Í þessu felst að yfirveðsettar eignir eru almennt færðar niður í um 100% veðsetningu í greiðsluaðlögun. Í rúmlega 70% mála hefur verið samið um 100% eftirgjöf á öllum samningskröfum einstaklinga sem og þeim kröfum sem sýslumaður afmáir af fasteign viðkomandi.

Það er því ljóst að viðræður við kröfuhafa í greiðsluaðlögun skila almennt góðri niðurstöðu fyrir einstaklinga. Í dag eru komnir á um 2.600 samningar um greiðsluaðlögun. Umboðsmaður skuldara hvetur einstaklinga, sem eru í verulegum greiðsluerfiðleikum, til að kynna sér úrræðið, en nánari upplýsingar má finna á heimasíðu embættisins: www.ums.is.

Meðalfjárhæð afmáðra veðkrafna er um 8.500.000 kr.

Meðaleftirgjöf á afmáðum veðkröfum er 93%

70% samninga um greiðsluaðlögun eru með 100% eftirgjöf af öllum afmáðum veðkröfum og samningskröfum.




Skoðun

Sjá meira


×