Skoðun

Opið bréf til fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Guðbjörn Jónsson skrifar
Ég líkt og flestir aðrir hef heyrt umræðuna um hækkun virðisaukaskatts (VSK) af matvöru úr 7% í 14%, til að afla ríkissjóði frekari tekna.

Fyrir 20 árum stýrði ég vinnu nefndar á vegum 10 verkalýðsfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem fjallaði um umfang og eðli svartrar atvinnustarfsemi. Eitt af því sem kom til skoðunar var innheimta VSK, en undanskot frá honum voru talin verulegur þáttur í svartri atvinnustarfsemi. Við óskuðum upplýsinga frá fjármálaráðuneyti um upphæðir og sundurliðun innskatts og útskatts í ríkisbókhaldi tvö síðustu ár sem lokið var uppgjöri, sem þá voru árin 1991 og 1992.

Við fengum fljótt til baka þau svör að ríkisbókhald bókaði ekki sérstaklega innskatt og útskatt í bókhaldsfærslum sínum, sem vakti nokkra undran vegna þess að samkvæmt lögum, sem Alþingi setti, bar öllum rekstraraðilum að færa innskatt og útskatt á sérstaka reikninga í bókhaldi sínu. Ríkissjóður var og er einn stærsti greiðandi rekstrarkostnaðar hér á landi, auk þess að vera fjármögnunaraðili flestra stórverkefna í samfélagi okkar. Sem slíkur er hann því einnig stærsti greiðandi VSK.

Þar sem ekki var hægt að fá uppgefið hjá ríkisbókhaldi ársveltu innskatts og útskatts varð að fara inn í ríkisreikning og sækja þangað upplýsingar um rekstrargjöld ríkisins, sundurliða þau og finna þann kostnað sem bæri VSK og reikna upphæð skattsins af þeirri upphæð. Gögnin bera með sér tap ríkissjóðs bæði árin sem skoðuð voru.

Þegar til stendur nú að auka kostnað okkar eldri borgara, sem enn höfum ekki fengið leiðréttingu skerðingar lífeyris vegna hrunáranna eða hækkun vegna aukins kostnaðarhluta lyfja, get ég ekki annað en vakið athygli ykkar á að fullkomin óvissa er um nettóhagnað ríkissjóðs af innheimtu VSK með þeim hætti sem nú er gert.

Einnig vil ég vekja sérstaklega athygli á því að fjármálaráðherrar undangenginna ríkisstjórna hafa, án heimilda, hunsað skyldu sína til innheimtu VSK af seldum eða leigðum aflaheimildum. Kaup og sala á fiski er VSK-skyld í 7% flokki. Þegar útgerð selur afla, er við löndun reiknaður VSK af aflaverðmætinu. Hafi sú sama útgerð keypt aflamagnið (kvótann) af annarri útgerð, var sú útgerð einnig að selja afla eftir vigt því upphæð viðskiptanna miðar við ákveðið magn í kílóum eða tonnum talið.

VSK hefur hins vegar aldrei verið innheimtur af þeim sem selja óveiddan afla til annarra útgerða. Á viðskiptamáli flokkast slíkt sem fyrirframgreidd sala. Svo þegar útgerðin sem keypti óveidda fiskinn, veiðir hann og selur, er fiskurinn allt í einu orðinn VSK-skyldur. Ef útskattur er á vöru verður innskattur að vera á sömu vörutegund. Ljóst er að þarna hafa fjármálaráðherrar undangenginna ára brotið lög um innheimtu VSK af sölu eða leigu aflaheimilda. Þarna er um að ræða útistandandi verulegar fjárhæðir VSK af sölu óveidds aflamagns.

Meðfylgjandi bréfi þessu er bréf sem ég ritaði Steingrími J. Sigfússyni, fyrrverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, þar sem ég vakti athygli hans á kvótaviðskiptum fjögra skipa sem verið höfðu í fréttum á árinu 2012. Var þar um að ræða heildarviðskipti kvótasölu að fjárhæð kr. 9.001.066.800. Af þeirri sölu átti að greiða VSK til ríkissjóðs, kr. 588.669.769, sem aldrei var innheimtur. Vakin er athygli á því að þarna er einungis um að ræða lítið brot af kvótasölu á árinu 2012. Í sjónhendingu er því hægt að sjá hvaða tekjum ríkissjóður er látinn tapa vegna vanrækslu á að innheimta lögboðin gjöld af viðskiptum með fisk.




Skoðun

Sjá meira


×