Innlent

Ströng löggjöf skilar árangri

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Áfengisneysla íslenskra unglinga hefur minnkað og er það rakið til þess að á Íslandi er ströng áfengislöggjöf.
Áfengisneysla íslenskra unglinga hefur minnkað og er það rakið til þess að á Íslandi er ströng áfengislöggjöf. NORDICPHOTOS/AFP
Unglingar drekka mest í löndum þar sem fullorðnir drekka mikið. Þetta er niðurstaða rannsóknar danskra vísindamanna sem skoðað hafa gögn úr könnunum frá 2010 með svörum um 140 þúsunda unglinga í 37 löndum Evrópu og Norður-Ameríku við spurningum um áfengisdrykkju. Ísland er meðal þeirra landa þar sem fæstir 15 ára unglingar hafa drukkið sig ölvaða einu sinni, eða 27 prósent. Hér var drykkja fullorðinna 6,3 lítrar af áfengi á ári, að því er segir í frétt á vef Jótlandspóstsins þar sem vitnað er í grein í ritinu Addiction.

„Við höfum í raun notið ávaxta af strangri áfengislöggjöf sem skilar sér í þessu,“ segir Ársæll Arnarsson, prófessor í sálfræði við Rannsóknasetur forvarna við Háskólann á Akureyri.

Hann segir könnunina sem dönsku vísindamennirnir skoðuðu gögn úr vera gerða á fjögurra ára fresti. „Hér gengur hún undir heitinu Heilsa og lífskjör skólabarna og Rannsóknasetur forvarna sér um fyrirlagninguna. Á Íslandi taka allir í sjötta, áttunda og tíunda bekk grunnskólanna þátt, eða alls 12 þúsund börn og unglingar.“

Að sögn Ársæls, sem er einn stjórnenda könnunarinnar hér, benda niðurstöðurnar hér á landi í ár til þess að áfengisneysla íslenskra unglinga hafi minnkað enn meira miðað við árið 2010. „Það eru margir þættir sem koma að því, eins og til dæmis almennt breytt hugarfar gagnvart áfengisneyslu unglinga. Þetta er ekki samþykkt lengur.“

Áhrif félagslegrar stöðu foreldra á drykkju unglinga er hvergi meiri en á Íslandi, að því er Ársæll bendir á. „Það eru miklu meiri líkur á að krakkar sem eiga foreldra sem eru í erfiðri félagslegri stöðu hafi drukkið sig ölvaða en aðrir krakkar. Við sjáum hvergi sambærileg áhrif af þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×