Innlent

Vandamál vegna veikinda starfsmanna hjá Reykjavíkurborg einskorðast ekki við velferðarsvið

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Svo virðist sem óvenju mikið sé um veikindi á meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar.
Svo virðist sem óvenju mikið sé um veikindi á meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Veikindi starfsmanna hjá Reykjavíkurborg virðast vera vandamál víðar en á velferðarsviði.

Eins og áður hefur komið fram kosta veikindi starfsmanna velferðarsviðs borgina 145 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins.

Á þeim tíma var veikindahlutfall sviðsins 6,1 prósent. Meðaltal veikindahlutfalls hjá skóla- og frístundasviði á fyrstu sex mánuðum ársins var 6,2 prósent en umhverfis- og skipulagssvið var hæst með 6,9 prósent að meðaltali.

Að sögn Ingunnar Bjarkar Vilhjálmsdóttur, mannauðsstjóra hjá Attentus, eru þær tölur háar og ástæða til að athuga nánar.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, mannauðsstjóri hjá Attentus, skoðar veikindafjarvistir starfsmanna og ástæður þeirra fyrir fyrirtæki.
„Með þessu áframhaldi hjá velferðarsviði gæti talan endað í 10 til 12 prósentum við árslok. Það er mjög alvarleg tala og bendir til að grípa þurfi til aðgerða,“ segir Ingunn. Aðspurð hvað teljist eðlilegt veikindahlutfall starfsmanna á vinnumarkaði segir Ingunn að því sé erfitt að svara.

„Það er erfitt að bera saman veikindahlutföll á milli vinnustaða þar sem oft eru mismunandi upplýsingar notaðar við skráningu á hverjum stað fyrir sig. Þumalputtareglan er að ef að veikindahlutfall er komið yfir fjögur prósent á árs grundvelli, þá er það á rauðu svæði. Maður vill helst sjá tölur frá 0 upp í 2-3 prósent yfir árið. Ég sem mannauðsstjóri skoða þetta árlega með þeim fyrirtækjum sem ég vinn fyrir og ef ég sé að meðaltalið er komið yfir fjögur prósent þá gríp ég til aðgerða.“

Samþykkt var á fundi borgarstjórnar fyrr í mánuðinum að skoða gagngert hvers vegna veikindi starfsmanna borgarinnar séu jafn mikil og raun ber vitni og hvernig bregðast megi við en mannauðsdeildir borgarinnar hafa að undanförnu unnið að viðverustefnu fyrir starfsmenn.

Markmið stefnunnar er að styðja við og hlúa að starfsmönnum vegna fjarveru frá vinnu, vegna veikinda, slysa eða áfalla um lengri eða skemmri tíma og draga úr veikindafjarvistum með markvissum aðgerðum.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, segir veikindafjarvistir hafa fylgni við efnahagssveifluna. „Þegar mikil eftirspurn er eftir fólki er veikindahlutfall starfsmanna hærra og öfugt. Það virðist vera sem fólk leyfi sér frekar að vera veikt heima þegar það er ekki atvinnuleysi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×