Innlent

Fötluð börn upplifa félagslega einangrun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Um 13 prósent foreldra sögðu að það að komast ekki á staðinn hindraði börn þeirra oft eða stundum í þátttöku í tómstundastarfi eða félagslífi.
Um 13 prósent foreldra sögðu að það að komast ekki á staðinn hindraði börn þeirra oft eða stundum í þátttöku í tómstundastarfi eða félagslífi. vísir/anton brink
'Meira en helmingur foreldra fatlaðra barna telur að barnið þeirra vanti félagsskap og aðstoð til að taka þátt í tómstundastarfi og félagslífi. Einnig telja um sjötíu prósent foreldra fatlaðra barna að barnið þeirra upplifi sig oft eða stundum einmana.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf og afstöðu notenda þjónustu við fatlað fólk. Forráðamenn svöruðu spurningalistanum fyrir hönd barnanna. Ef niðurstöðurnar um félagslega þátttöku barna eru bornar saman við sambærilega könnun frá 2011, kemur í ljós að áhyggjur foreldra hafa þyngst verulega.

Í niðurstöðunum kemur fram að foreldrar barna með þrjár skerðingar eða fleiri voru mun líklegri til að telja skort á félagsskap hindra þátttöku barna sinna, eða tveir af hverjum þremur. Einnig jókst skortur á félagsskap með hækkandi aldri og var mun algengari meðal unglinga um og yfir fjórtán ára aldurinn.

María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls, segir þetta ríma við reynslu ráðgjafa foreldra með sérþarfir þar sem foreldrar virðist almennt hafa mestar áhyggjur af félagslegri stöðu barna sinna og margir segi börn sín fara í gegnum skólakerfið án þess að eignast nokkurn vin.

Nýlega kom fram á Vísi að tæplega fimm hundruð börn væru á biðlista í Reykjavík eftir stuðningsþjónustu, þar á meðal félagslegum stuðningi í formi liðveislu, vegna erfiðleika við að fá fólk í störfin.

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru eingöngu 30 prósent fatlaðra barna með félagslega liðveislu og 17 prósent á biðlista eftir slíkri þjónustu, þar af tæpur helmingur búinn að vera meira en ár á biðlista. 

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, segir könnunina vera á dagskrá velferðarráðs í dag enda kom fram þar að um 30 prósent foreldra væru óánægð með þjónustuna eftir að hún var flutt frá ríki til sveitarfélaga.

„Við viljum kortleggja betur hvað foreldrar eru óánægðir með svo við getum mætt frekar þörfum þeirra í Reykjavík,“ segir Björk. Spurð hvað eigi að gera til að stytta biðlista eftir félagslegri liðveislu segir hún að fara þurfi í átak til að fá fleiri til að sækja um störfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×