Innlent

Bláberin bregðast á Vestfjörðum í ár

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Svona lék birkifetinn annars góða bláberjabrekku í Meðaldal við Dýrafjörð í fyrra.
Svona lék birkifetinn annars góða bláberjabrekku í Meðaldal við Dýrafjörð í fyrra. myndir/erling ólafsson
„Það er bara eiginlega ekkert um aðalbláber hérna,“ segir Salbjörg Þórbergsdóttir frá Súðavík. Hún hefur tínt bláber í marga áratugi en man ekki svo magra berjatíð eins og þessa í ár.

Því miður er þetta svipuð saga og viðmælendur Fréttablaðsins hafa að segja úr Inndjúpinu, Gufudal í Reykhólahreppi og frá suðurfjörðunum.

„Mest af þessum aðalbláberjum sem maður þó finnur eru brún og skemmd,“ segir hún.

Haustið í fyrra var rýrt en hún segir þetta ætla að verða sýnu verra.

Hún segir ennfremur að ástæðan kunni að vera sú að mikil vætutíð ríkti í sumar en svo er ekki loku fyrir það skotið að birkifetinn sé farinn að láta til sín taka við Djúpið eins og víðar annars staðar.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir frá þessum vágesti. Nokkuð fór að bera á honum árið 2008 en þá skildi hann bláberjalyng eftir brúnt og uppétið í Dölum, á Snæfellsnesi og á nokkrum stöðum á Vestfjörðum.

„Ég er ekki frá því að hann sé farinn að teygja sig hingað yfir,“ segir Salbjörg sem séð hefur brekkur í slíku ástandi við Álftafjörðinn.

Guðmundur Bjarnason, sem fór í bláberjatínslu við rætur Hálfdáns við Bíldudal, segir svipaðar fregnir þaðan.

Ekki er þó hægt að kenna birkifeta um allt bláberjahallæri því við bæinn Skjaldfönn í botni Ísafjarðardjúps eru engin ummerki um hann en þó er lyng laust við kræsileg bláber.

„Venjulega gat maður farið rétt upp fyrir bæinn til að ná í eftirrétt en því er ekki að heilsa í ár,“ segir Kristbjörg Lóa Arnardóttir á Skjaldfönn. Þar kom líka næturfrost í síðustu viku sem lék illa þau fáu ber sem þó voru til.

Hafrós Huld Einarsdóttir frá Fremri-Gufudal segir að lítið sé að hafa í dalnum sem venjulega er þó afar bláberjagjöfull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×