Innlent

Stolt af þjónustu við þolendur kynferðisbrota

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sami staður Þolendur kynferðisofbeldis sækja sér aðstoð á Neyðarmóttöku sem deilir húsnæði með bráðamóttöku Landspítala. Fréttablaðið/Pjetur
Sami staður Þolendur kynferðisofbeldis sækja sér aðstoð á Neyðarmóttöku sem deilir húsnæði með bráðamóttöku Landspítala. Fréttablaðið/Pjetur
„Þetta hefur aldrei verið vandamál. Á tuttugu ára tímabili hefur þetta eina tilvik komið upp,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri bráðasviðs Landspítalans. Fréttablaðið sagði frá því í gær að fórnarlamb nauðgunar á Selfossi, sem var ekið á bráðamóttöku, hefði þurft að snúa heim án skoðunar vegna þess að of löng bið var eftir lækni.

„Við getum verið stolt af þessari þjónustu. Þó er alltaf gott að taka hlutina til endurskoðunar og sjá hvað við getum gert betur,“ segir Guðlaug. Hún hyggst því taka málið upp innanhúss og funda með Eyrúnu Jónsdóttur, verkefnastjóra neyðarmóttöku.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá þessa umræðu af stað. Neyðarmóttakan, rétt eins og önnur starfsemi spítalans, er ekki hafin yfir gagnrýni,“ segir Guðlaug. „En ég hef ekki heyrt fólk kvarta mikið undan þessari þjónustu heldur hef ég frekar heyrt að hún sé öflug.“

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Styrkja mætti þjónustu neyðarmóttöku til muna

Guðlaug segir að alltaf sé hjúkrunarfræðingur á vakt sem setið hefur námskeið í að taka á móti fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Hún leggur áherslu á að þeir sem valist hafa til þeirra starfa sinni þeim af miklum myndugleik, umhyggju og fagmennsku.

Þjónustan við fórnarlömb kynferðisofbeldis sem leita sér hjálpar á neyðarmóttöku sé endurskoðuð með reglubundnum hætti en að hennar mati sé málefnum móttökunnar vel fyrir komið. 

Þó er það staðreynd að þegar fórnarlamb kynferðisofbeldis kemur á neyðarmóttöku þarf að kalla út sérfræðilækni og bið eftir honum er alla jafna nokkrar klukkustundir. 

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, er þeirrar skoðunar að styrkja þurfi þjónustu neyðarmóttökunnar til muna. „Ég veit vel að það þarf að kalla út teymi og það getur tekið nokkra klukkutíma. En það vita ekki konurnar og karlarnir sem sækja sér hjálp. Hver klukkutími í þessum bráðafasa getur verið erfiður.“ 

Styrkja þurfi þjónustuna, sér í lagi ef litið er til þess hversu ört brotum hefur fjölgað í þessum málaflokki.

Hún nefnir hugmyndir sem uppi hafa verið um að færa neyðarmóttökuna af bráðamóttökunni og skipuleggja hana á svipaðan hátt og starfsemi Barnahúss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×