Lífið

Sænskt vor í þingholtunum

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
kirsuberjatré í 101 "Það koma reyndar ekki æt ber á mitt tré en maður fær ekki allt.“ Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur endurskapaði vorið í Stokkhólmi í garðinum sínum í Þingholtunum.
kirsuberjatré í 101 "Það koma reyndar ekki æt ber á mitt tré en maður fær ekki allt.“ Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur endurskapaði vorið í Stokkhólmi í garðinum sínum í Þingholtunum. mynd/gva
Ég kalla þetta sænsk-japanska hornið mitt,“ segir Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur en í litlum garði í Þingholtunum hefur hún ræktað upp fallegt kirsuberjatré sem blómstrar bleikum blómum á vorin. Tréð minnir hana á vorin í Svíþjóð.

„Ég hreifst af kirsuberjatrjám þegar ég bjó í Stokkhólmi, bæði sem ungur námsmaður og aftur á miðskeiði ævinnar en þar eru skörp skil milli árstíða. Vorið markast af mikilli blómasprengingu þegar öll ávaxtatrén blómstra, sem mér fannst alltaf yndislega fallegt að sjá. Það má segja að þetta sé mín endursköpun á sænsku vori,“ segir hún. „Það koma reyndar ekki æt ber á mitt tré en maður fær ekki allt.“

Kirsuberjatrénu plantaði Steinunn sjálf fyrir tólf árum. Hún er mikil áhugamanneskja um trjárækt og lætur það síður en svo stoppa sig þó hún búi í 101, heldur stundar umfangsmikla skógrækt á svölunum.

„Ætli ég sé ekki búin að koma upp um hundrað trjáplöntum gegnum tíðina á svölunum hjá mér en síðan ég var unglingur í skógrækt í Þverárhlíð í Borgarfirði hef ég haft gaman af því að koma til trjám. Svo rakst ég eitt haust á mann í Öskjuhlíðinni sem var að safna fræjum af birkitrjám og fékk hann til að útskýra fyrir mér hvernig ætti að koma birkihríslum á legg upp af fræjum,“ segir Steinunn. „Ég verð honum ævinlega þakklát fyrir þau góðu ráð.“

Trjánum hefur Steinunn þó ekki getað plantað í eigin garð, þar sem hann þekur ekki marga fermetra. „Ég er bara á ferðinni með plönturnar í skottinu og pota þeim niður þar sem ég get. Ég gef þær líka eða fæ að stinga þeim niður hjá vinum,“ segir hún sposk.

„Mér þykir ofboðslega vænt um garðinn minn þó lítill sé. Hér vaxa túlípanar, rósir og anímónur, eins og í ljóði Laxness. Hér ægir ýmsu saman og ég nýt þess að fylgjast með garðinum lifna á vorin. Tegundirnar taka við sér á ólíkum tíma svo það er alltaf eitthvað að gerast og kirsuberjatréð ber blómin í allt að þrjár vikur, ef ekki blæs.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.