Viðskipti innlent

Dregst um nokkra daga

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Frosti Sigurjónsson
Frosti Sigurjónsson
„Það getur farið svo að það tefjist um einhverja daga, viku eða svo, að fólk geti sótt um skuldaleiðréttingar. Það breytir hins vegar engu um að niðurstöður aðgerðanna munu liggja fyrir eftir fyrsta september,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri skuldaniðurfellinga ríkistjórnarinnar.

Ríkisskattstjóri telur ekki raunhæft að hægt verði að sækja um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum þann 15. maí. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis er þessu ósammála.

Ríkisskattstjóri segir í umsögn um frumvarp til leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána að í því sé miðað við að leiðréttingin taki til fasteignaveðlána heimila. Hugtakið heimili sé hins vegar vandmeðfarið þar sem lagalega skilgreiningu skorti á því.

Þá segir enn fremur að frumvarpið geri ráð fyrir að unnt verði að sækja um leiðréttingu frá og með 15. maí 2014. Ríkisskattstjóri telur að gildistaka frumvarpsins þarfnist endurskoðunar í ljósi þess hve nálægt er komið þeirri dagsetningu.

Ætla megi að umfjöllun Alþingis taki nokkurn tíma og því umrædd dagsetning ekki lengur raunhæf.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að frumvarpið verði afgreitt úr nefndinni á föstudag. Umfjöllun um það sé á áætlun.

„Þegar frumvarpið hefur verið afgreitt frá nefndinni liggja fyrir allar breytingar sem gerðar verða á því. Það skiptir því ekki öllu máli hversu langan tíma umræður um frumvarpið taka á þingi,“ segir Frosti. Ríkisskattstjóri hafi því nægan tíma til að undirbúa málið.

„Við gerum okkar, hann gerir sitt,“ segir Frosti og er sannfærður um að það verði hægt að sækja um skuldaleiðréttingu 15. maí næstkomandi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×