Viðskipti innlent

Hvalfjarðarsveit vill 77 milljarða sólarkísilver

Haraldur Guðmundsson skrifar
Athafnasvæðið á Grundartanga.
Athafnasvæðið á Grundartanga. Vísir/Pjetur.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur lýst yfir formlegum stuðningi við byggingu 77 milljarða króna sólarkísilverksmiðju bandaríska fyrirtækisins Silicor Materials á Grundartanga.

Sveitarfélaginu hefur borist erindi frá nefnd ríkisins um ívilnanir vegna nýfjárfestinga þar sem kemur fram að bandaríska fyrirtækið hafi óskað eftir ívilnunum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Ívilnanir fela í sér afslætti af ýmsum opinberum gjöldum og sköttum.

„Við höfum nú tekið jákvætt í veitingu ívilnana til fyrirtækisins en við byrjuðum á því að undirbúa breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar til að koma verksmiðjunni fyrir,“ segir Laufey Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar.

Laufey segir að nefndin muni nú fara með formlegt erindi bandaríska fyrirtækisins til ríkisstjórnarinnar þar sem ákvörðun verði tekin um hvort fjárfestingarsamningur verði gerður.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, sem eiga lóðirnar á Grundartanga, segir að fulltrúar Silicor Materials séu væntanlegir hingað til lands í næstu viku.

„Þeir hafa verið að ræða við orkufyrirtækin og bankana og fleiri og það verður væntanlega framhald á því. En þeir eru ekki endanlega búnir að taka ákvörðun um hvar verksmiðjan gæti risið. Þeir stefna að framkvæmdum í haust, og þá vonandi á Íslandi, og því ætti að fara að draga til tíðinda fljótlega,“ segir Gísli.

Áætlanir Silicor Materials gera ráð fyrir verksmiðju sem gæti framleitt um sextán þúsund tonn af sólarkísil á ári og skapað um fjögur hundruð störf. Skipulagsstofnun ákvað nýverið að fyrirhuguð framleiðsla fyrirtækisins yrði ekki háð umhverfismati.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×