Skoðun

Byggjum brýr

Líf Magneudóttir skrifar
Oft er snúið að koma sér aftur út í atvinnulífið eða í skólann eftir að fæðingarorlofi lýkur. Hingað til hafa einu úrræðin verið að koma börnum að hjá dagforeldrum eða inn á svokallaða ungbarnaleikskóla. Það fá ekki allir foreldrar tækifæri til þess. Félagsstofnun stúdenta tekur t.d. við börnum frá 6 mánaða aldri en til að fá pláss þarf viðkomandi að vera skráður í HÍ. Ekki geta allir nýtt sér þetta.

Sum sveitarfélög niðurgreiða heldur ekki dagvistunarúrræði í öðrum sveitarfélögum þrátt fyrir að bjóða ekki upp á þjónustu við ung börn. Það getur því verið ærið kostnaðarsamt fyrir marga að nýta sér þjónustu við ung börn. Það sama gildir um dagforeldrakerfið. Biðlistar eru langir og svo er skortur á dagforeldrum í sumum hverfum. Dagvistargjaldið er einnig hærra í báðum tilvikum heldur en í borgarreknum leikskólum og getur foreldra munað um það því ýmiss konar útgjöld fylgja börnum.

Vandinn sem blasir við er augljós. Þjónustan sem býðst foreldrum og ungum börnum er af skornum skammti og svo er fæðingarorlofið of stutt og þakið á greiðslum í því of lágt. Á síðasta kjörtímabili var stigið skref í rétta átt þegar Alþingi samþykkti lög um lengingu fæðingarorlofs. Á þessu kjörtímabili voru þau hins vegar afnumin af nýju þingi. Er það mikil afturför í málefnum barnafjölskyldna.

Við vinstri græn höfum barist fyrir því að taka börn fyrr inn í borgarrekna leikskóla. Til þess þurfum við að leggja áherslu á þjónustu við ung börn og foreldra þeirra, stækka leikskólana og laða að fleiri leikskólakennara með því m.a. að bæta starfskjör þeirra. Því miður hefur ekki verið pólitískur vilji til að forgangsraða með þessum hætti. Skrefin hafa því ekki verið stigin. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að Reykjavíkurborg gangi fram fyrir skjöldu og hefji vinnuna við það að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er ekki bara þjóðhagslega hagkvæmt og sjálfsögð þjónusta við borgarbúa heldur einnig liður í því að jafna stöðu kynjanna og létta fjárhagslegar byrðar barnafjölskyldna. Við vinstri græn höldum áfram að mæla fyrir þessu þar til brúin á milli fæðingarorlofs og leikskóla verður byggð.




Skoðun

Sjá meira


×