Viðskipti innlent

Segja tugmilljarða ábata verða af flutningi Reykjavíkurflugvallar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Íbúar á höfuðborgar- svæðinu fá mikinn ábata af því að færa flugvöllinn. Íbúar landsbyggðarinnar verða hins vegar fyrir miklum kostnaði af flutningi flugvallarins.
Íbúar á höfuðborgar- svæðinu fá mikinn ábata af því að færa flugvöllinn. Íbúar landsbyggðarinnar verða hins vegar fyrir miklum kostnaði af flutningi flugvallarins. Fréttablaðið/Vilhelm
Um 45 milljarða króna ábati er af því að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýri á Hólmsheiði eða til Keflavíkur. Þetta kemur fram í hagrænni úttekt Capacent á framtíðarstaðsetningu flugvallarins sem fór í sérmat á samfélagslegri arðsemi af flutningi flugvallarins úr Vatnsmýri á Hólmsheiði, Löngusker eða til Keflavíkur.

Flutningur til Keflavíkur er metinn hagkvæmari en flutningur á Hólmsheiði og rúmlega 10 milljörðum króna hagkvæmari en flutningur á Löngusker. Í niðurstöðum Capacent um samfélagslega arðsemi flutningsins segir að þær séu afdráttarlausar og ekki næmar fyrir breytingum á forsendum.

Stærsti einstaki áhrifaþátturinn í greiningunni er mat á virði Vatnsmýrarinnar ef flugvöllurinn fer. Þannig er virðið metið út frá ábata íbúa höfuðborgarsvæðisins við minni akstur vegna uppbyggingar blandaðrar byggðar í Vatnsmýrinni frekar en í úthverfum borgarinnar. Ábatinn er reiknaður út frá minni tíma sem varið er í akstur og minni rekstrarkostnað bíla vegna styttri akstursvegalengda, ásamt öðrum þáttum tengdum mengun og slysum.

Ef litið er til annarra áhrifaþátta en verðmætis Vatnsmýrarinnar og þeir lagðir saman, verður kostnaður við flutning flugvallarins hærri en ábatinn. Ábatinn af því að nýta Vatnsmýrina undir byggð er hins vegar margfalt meiri en sem nemur þessum kostnaði. Þessir áhrifaþættir hafa áhrif á innbyrðis niðurröðun valkostanna við að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.

Byggingarkostnaður flugvallar er mun meiri á Hólmsheiði og Lönguskerjum en í Keflavík þar sem starfræktur er alþjóðaflugvöllur. Gerð landfyllinga á Lönguskerjum er ástæða þess að óhagkvæmara er að flytja flugvöllinn þangað frekar en á Hólmsheiði. Rekstrarkostnaður innanlandsflugvallar er metinn mun minni í Keflavík en á öðrum stöðum. Á móti kemur aukinn kostnaður vegna aksturs til og frá flugvelli.

Kostnaði og ábata er skipt niður á milli hagsmunaaðila. Flutningur flugvallarins skilar tugmilljarða króna ábata fyrir íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar verða íbúar landsbyggðarinnar fyrir miklum kostnaði fari flugvöllurinn til Keflavíkur vegna ferða til og frá flugvelli. Á móti nýtur ríkið samlegðar vegna reksturs flugvallarins við hlið millilandaflugvallar.

Úttektin er unnin á grundvelli skýrslu ParX viðskiptaráðgjafar IBM sem var unnin fyrir nefnd á vegum samgönguráðuneytisins um úttektir á Reykjavíkurflugvelli. Í nefndinni sátu fulltrúar Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins. Hún kom út árið 2007 og við gerð hennar var haft samráð við nefndina og helstu hagsmunaaðila um val á aðferðafræði og ákvörðun á helstu forsendum. Kostnaðar- og ábatagreiningin felur í sér að metinn er kostnaður og ábati umfram grunnkost (óbreytt ástand) sem leiðir af því að flytja flugvöllinn á aðra staði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×