Viðskipti innlent

Viðskiptaráð leggst gegn tillögu um viðræðuslit

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á nýafstöðnu Viðskiptaþingi. Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, heldur ræðu.
Á nýafstöðnu Viðskiptaþingi. Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, heldur ræðu. Fréttablaðið/Pjetur
Viðskiptaráðs Íslands telur ekki rétt að slíta aðildarviðræðum við ESB á þessum tímapunkti líkt og lagt er til í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu utanríkisráðherra. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn Viðskiptaráðs samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær.

Vísað er til fyrri ályktunar stjórnarinnar frá því í nóvember 2012 þar sem stjórnin taldi brýnt að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið yrðu til lykta leiddar og að kapp yrði lagt á að ná sem allra bestum samningi sem síðan yrði lagður í dóm þjóðarinnar.

„Í ljósi þess að hvorugur núverandi stjórnarflokka er fylgjandi ESB-aðild má færa rök fyrir þeirri afstöðu að torvelt gæti reynst að halda aðildarviðræðum áfram á þessum tímapunkti. Þrátt fyrir það telur stjórn Viðskiptaráðs ekki rétt að slíta viðræðunum,“ segir í ályktuninni nú.

„Með slíkri ákvörðun væri lokað á mikilvægan valkost í efnahagsmálum, einkum hvað varðar framtíðarskipan peningamála.“

Stjórn ráðsins telur skynsamlega sáttaleið að gera hlé á aðildarviðræðunum til loka þessa kjörtímabilsins.

„Sú leið myndi skapa grundvöll fyrir stjórnvöld til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins næstu þrjú ár í breiðari sátt við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila en ella.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×