Lífið

Rauðsokka í 20 ár

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Garðar er í rauðum sokkum í hesthúsinu líkt og í brúðkaupum og jarðarförum. Aðeins rauðir sokkar eru í fataskápnum enda er hann yfirlýst rauðsokka.
Garðar er í rauðum sokkum í hesthúsinu líkt og í brúðkaupum og jarðarförum. Aðeins rauðir sokkar eru í fataskápnum enda er hann yfirlýst rauðsokka. Valli
Garðar Gíslason, félagsfræðikennari í MK, hefur gengið í rauðum sokkum í tuttugu ár og segist hann vera rauðsokka. „Þetta byrjaði allt út frá því að ég var að kenna nemendum mínum um viðmið og frávik. Til þess að skilja þetta betur benti ég þeim á að prófa að brjóta einhverjar óskráðar reglur og þau vildu þá að ég gerði það líka. Ég tók þau á orðinu, fann rauða skíðasokka inni í skáp og mætti í þeim í skólann daginn eftir. Viðbrögðin á kennarastofunni voru svakaleg frá karlkyns samkennurum. Þeir trúðu ekki að karlmaður væri kominn í rauða sokka og sögðu að ég mætti þetta ekki, það væru bara rauðsokkur í rauðum sokkum,“ segir Garðar. Verandi félagsfræðingur fannst Garðari þessi viðbrögð samstarfsmannanna merkileg og ákvað að halda áfram að vera í rauðu sokkunum. „Nú á ég ekkert nema rauða sokka.”

JAFNRÉTTISVIKA Í MK

Garðar er félagsfræðikennari í Menntaskólanum í Kópavogi. Í dag hefst Jafnréttisvika í skólanum sem hann er upphafsmaður að. „Í Jafnréttisvikunni er boðið upp á fyrirlestra og kvikmyndir sem fjalla á einhvern hátt um jafnréttisbaráttu kynjanna. Við höfum fengið jafnréttisverðlaun frá bæði Kópavogsbæ og félagsmálaráðuneytinu fyrir þetta framtak,“ segir Garðar.

ÞARF AÐ HRISTA UPP Í KRÖKKUM

Hann hefur það á tilfinningunni að Jafnréttisvikan hafi áhrif á nemendur. „Það er full ástæða til að hafa Jafnréttisviku eins og við erum með vegna þess að það þarf að hrista upp í krökkum. Það er svo margt að fara úrskeiðis eins og er að gerast með klámvæðinguna og þessi brengluðu viðhorf. Hugmyndir margra um atriði eins og jafnrétti, kynlíf og líkamsvirðingu eru oftar en ekki byggðar á ranghugmyndum sem sumar hverjar eru skaðlegar. Jafnréttisvikan gerir það að verkum að það er talað meira um þessi mál. Þó verða alltaf til raddir sem gaspra á móti jafnréttinu. Ég held að það sé aðallega fólk sem skilur ekki hugtakið femínismi eða út á hvað það gengur.”

ÞAÐ GERIST EKKERT Í LOGNI

Garðar segist oft eiga í vandræðum með að skilja þá sem berjast gegn femínisma og jafnrétti og hann fagnar þeim sem segjast vera öfgafemínistar. „Uppeldi skiptir máli í þessu samhengi. Til eru krakkar með viðhorf sem eru full kvenfyrirlitningar og einhvers staðar hafa þau lært þau. Öfgar þurfa að vera til staðar, það gerist ekkert í logni. Því fleiri sem eru í rauðum sokkum, því betra. Það er ákveðin yfirlýsing.“

BÖRNIN JAFNRÉTTISSINNUÐ

Tvö af börnum Garðars, þau Rakel og Gísli Örn, hafa verið nokkuð áberandi í íslensku þjóðlífi. Garðar segir þau vera alin upp í anda jafnréttis. „Fyrir mér er þetta spurning um mannvirðingu. Rakel og Gísli Örn eru bæði miklir jafnréttissinnar. Ég er mjög ánægður með hvernig þau hugsa og tel uppeldið hafa skilað sér,“ segir Garðar.

ÖLL Í HESTUNUM

Þar sem Garðar er farinn að ræða fjölskylduna er hann spurður nánar út í hana. Í ljós kemur að hann er mikill hestamaður. „Fjölskyldan er öll á kafi í hestamennsku og þar ríkir mikið jafnræði nema meðal hestanna. Að minnsta kosti telja barnabörnin einu merina í hópnum lagða í einelti af hinum. Nú er önnur meri að bætast í hópinn því Gísli Örn gaf eiginkonunni hana í fertugsafmælisgjöf á dögunum. Hún verður að vera á eigin hesti, stelpan,“ segir Garðar og hlær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.