Lífið

Er ég í alvöru að fara að vinna við þetta?

Þorbjörg Helga Dýrfjörð
Þorbjörg Helga Dýrfjörð
„Mig var eiginlega farið að lengja eftir því að útskrifast,“ segir Obba.

„Ég held að það hafi ekki allir upplifað þetta en mér fannst þetta orðið svolítið langt. Nemendaleikhúsið, sem er á fjórða ári, var virkilega skemmtilegt og lærdómsríkt, en í dag hefur leikaranámið verið stytt í þrjú ár. Fyrsta verkið var „devised“ verk, eins og það kallast, í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur, en þá er maður að búa verkið til í æfingaferlinu. Mér fannst það rosalega gaman. Seinni tvær uppfærslurnar það árið voru öllu hefðbundnari. Það var áhugavert að fá að prófa hvort tveggja og nemendaleikhúsið var góður skóli. Ég fékk að upplifa að taka þátt í verkefni sem mér leið vel í en einnig þar sem mér leið illa. Ég viðurkenni alveg að það kom tímabil þar sem ég hugsaði: Er ég í alvöru að fara að vinna við þetta? Eftir á að hyggja var nemendaleikhúsið eitthvað sem ég hefði alls ekki viljað sleppa.“

Obba útskrifaðist úr skólanum og fékk hlutverk í Borgarleikhúsinu.

„Það er soldið fyndið. Þegar maður útskrifast sem leikari þá spyrja allir, og hvað ætlarðu eiginlega að fara að gera? Það að vera komin með vinnu í Borgarleikhúsinu var því mjög þægileg staða að vera í þar sem það krafðist ekki frekari spurninga. Margir af samnemendum mínum voru við útskrift að fara að gera ótrúlega spennandi hluti, á eigin vegum. Ég var þátttakandi í einu slíku verkefni sumarið eftir útskrift en mér fannst eins og fólki þætti það ekki alveg jafn merkilegt og að ég væri að fara að vinna í Borgarleikhúsinu um haustið.“

Ekki góð í að drekka latte

„En ég var að leika í þessu verki, Rautt brennur fyrir, sem var mikil reynsla. Þetta var erfitt ferli, en jafnframt rosalega gleðilegt, enda Borgarleikhúsið mjög lifandi og skemmtilegur vinnustaður. Það hefði alveg verið gaman að halda áfram í Borgarleikhúsinu en líklegast var það fyrir bestu á þeim tímapunkti að svo varð ekki. Eftir nokkur erfið verkefni í röð var ég orðin soldið bitur gagnvart leiklistinni. Og ástríðan einhvern veginn farin.“ 

Eftir að sýningum lauk vissi Obba ekki hvert hennar næsta skref yrði. 

„Ég vissi bara að mig vantaði pening því mig langaði að fara eitthvað út. Ég var ekki á þeim stað að fara að gera eitthvert sjálfstætt verkefni og þar sem ég var þá ekki góð í að drekka latte og taka hlutunum rólega þá fór ég að leita mér að vinnu utan áhugasviðsins. Mér bauðst starf sem ritari á lögfræðistofu. Og ég bara: Já, snilld. Og sló til,“ segir Obba.

„Það sem kom mér kannski mest á óvart var hvað ég fílaði mig geðveikt vel. Ég held að margir sem vinna frá níu til fimm þrái tilbreytingu, en mér fannst þetta algjörlega æðisleg, að fara af sviðinu og inn á lögfræðistofu.”

Úr leikhúsinu í lögfræðinám

„Svo gerðist það brátt að þetta starf byrjaði að heilla mig og mér fannst þetta svo áhugavert. Ég hugsaði með mér að ég gæti alveg eins lært þetta. Þannig að ég skráði mig í lögfræði þarna um haustið. Svo er það um vorið, áður en ég byrja í skólanum, að ég er fengin í prufur til Baltasars Kormáks og um sumarið fæ ég hlutverk í Djúpinu,“ heldur Obba áfram, en hún var einnig tilnefnd til Eddunnar fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd.

„Það var æðislegt að leika í Djúpinu. en ég ákvað samt að fara í skólann um haustið. Ég man eftir wrap-partíinu í Djúpinu sem var á sunnudegi. Ég vaknaði snemma til þess að læra heima áður en ég komst í partíið og mætti svo soldið þunn í fyrsta tíma klukkan 8:15 á mánudegi. Svo held ég áfram í skólanum og þarna um haustið hitti ég Ragga (Ragnar Bragason) á kaffihúsi og hann viðrar þessa hugmynd, sem þetta var þá, um Málmhaus og að hann hafi mig í huga í þetta hlutverk,“ rifjar Obba upp.

„Ég man að ég las handritið og hugsaði fyrst hvað þetta væri flott og sterkt kvenhlutverk. Og ég var mjög upp með mér yfir því að hann vildi að ég tæki það að mér. Þá var þetta á algjöru byrjunarstigi og ég var að taka almennu lögfræðina. Mér fannst æðislegt í skólanum. Það var góð ákvörðun að prófa eitthvað allt annað“ útskýrir Obba.

„Ég held að sé mikilvægt ef maður er að verða bitur, sama hvenær það er á ferlinum, að gera eitthvað í því. Það er á manns eigin ábyrgð sem listamanns að leyfa sér ekki að vera bitur lengi því það smitar út í vinnuna. Það eru samt til margar aðrar leiðir og eflaust betri en að hefja lögfræðinám,“ segir Obba og hlær. „Þetta er erfiður bransi og þó það hafi ekki verið meðvitað, þá varð þessi útúrdúr minn til þess að ég kom aftur á réttari og fallegri forsendum. En það er alltaf hægt að vera vitur eftir á.“

Þorbjörg Helga Dýrfjörð
Langar ekki bara að leika

En er það kvikmyndagerðin sem á hug hennar allan?

„Ég er búin að vera að vinna að kvikmyndum undanfarið og ég er orðin ástfangin af kvikmyndagerð – hvernig þetta er unnið og verbúðastemningin,“ heldur hún áfram. „Að fá svona stórt hlutverk eins og í Málmhaus og vera á setti á hverjum degi er lærdómsríkt – allt í einu var ég farin að hafa áhuga á því hvaða linsa væri notuð á kameruna. Ég gæti vel hugsað mér að vinna við kvikmyndir, og ekki bara sem leikari. Ég man að við sátum einhvern tíma, ég og Raggi og fleiri úr krúinu, og við vorum að ræða það hvað okkur langaði að gera annað í myndinni, ef við ættum ekki hvert okkar hlutverk. Allir höfðu hugsað um það og höfðu eitthvað að segja. Ef ég man rétt sagðist Raggi geta hugsað sér að vinna með hljóð og tónlist. Það var svo gaman að heyra á hverju fólk var að kveikja – þá var ég orðin heit fyrir því að vera skrifta, að þurfa að taka eftir öllu og vera með allt á hreinu – það starf er náttúrlega eins og að leysa einhverja súdókúþraut,“ segir Obba létt í bragði og heldur áfram.

Síðan tökum á Málmhaus lauk hefur lék Obba hlutverk í Borgríki 2.

„Ég vona að það séu bjartari tímar framundan í starfsumhverfi kvikmyndagerðarfólks á Íslandi. Þú getur ímyndað þér hvað er gaman að vera ungur í bransanum og vera að gera eitthvað og sjá svo umhverfið sem bíður manns. Eins og núna, þá höfum við verið að ferðast með myndina og tala við fólk og það er bara algjörlega gáttað þegar maður segir því hvað er í gangi í kvikmyndagerð á Íslandi. Sérstaklega í ljósi þess að það var nýbúið að hækka í kvikmyndasjóðnum til þess eins að taka það til baka. Það er margsinnis búið að benda á að peningar sem eru settir í kvikmyndagerð koma til baka, og þar fyrir utan finnst mér menningarlegi auðurinn sem fæst af kvikmyndagerð vera næg ástæða til að styðja vel við bakið á kvikmyndagerðarmönnum.“

Með umboðsmann í BNA

Obba fékk nýlega samning hjá umboðsmanni í Bandaríkjunum.

„Þetta er stór umboðsskrifstofa í LA og New York og þau eru með alls konar fólk á mála – leikstjóra, leikara, framleiðendur og raunveruleikastjörnur. Við Raggi erum hjá sömu skrifstofu en ekki með sama umboðsmann. Þetta kom þannig til að við vorum að heimsfrumsýna Málmhaus í Toronto. Svo í frumsýningarpartíinu kemur einhver gæi og kynnir sig sem umboðsmann, sem ég veitti svo sem ekki mikla athygli, því ef ég á að segja alveg eins og er þá á maður svo mörg svona samtöl úti, sérstaklega á djamminu, þá eru allir höfundar, framleiðendur eða umboðsmenn. En hann var almennilegur og gaf mér nafnspjaldið sitt. Svo næsta dag hittumst við og ræddum saman og ég var komin á mála hjá honum. Ég veit ekkert hvað kemur út úr því, en ef það verður eitthvað þá er það bara bónus,“ segir Obba hógvær.

Málmhaus fékk ótrúlega góðar viðtökur og ferðaðist víða. „Það gekk mjög vel, alls staðar þar sem við fórum með hana.”

Hvað er næst?

„Við búum við lítinn markað. Það væri geðveikt að geta starfað líka úti. Ég tala sænsku og þykir vænt um Svíþjóð og væri alveg til í að vinna eitthvað þar ef það býðst, ásamt því að starfa hér heima,“ segir Obba, en lætur ekkert uppi um hvort flutningar standi til.

Þorbjörg Helga Dýrfjörð
Obba og Steinunn sminka. Þorbjörg Helga þurfti að læra á gítar fyrir hlutverkið. Þorbjörg segist vera orðin mikill aðdáandi metal eftir myndina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.